Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 14:13:45 (469)

2002-10-10 14:13:45# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. virðist hafa miklar áhyggjur af því að mikill fjöldi lífeyrisþega komist á verulega betri kjör eftir að hann hættir vinnu með því að taka lífeyri og eigi síðan rétt á tryggingabótum frá ríkinu. Ég hef ekki getað séð þau dæmi sem hv. þm. er alltaf að tala um. Ég held að fróðlegt væri, af því við förum í lífeyrisumræðu á eftir um Lífeyrissjóð sjómanna og hvernig hann stendur, að hv. þm. tæki þá umræðu með mér um þau mál og kæmi með þau dæmi á borðið sem hv. þm. er að tala um. Mér þætti það fróðlegt ef menn þyrðu að leggja þessi dæmi hér á borðið og hversu marga þetta vandamál snertir sem hv. þm. var að tala um.

Ég er hins vegar að tala um vandamál þess fólks sem hefur lífeyrisrétt undir 40 þús. kr. á mánuði og er nánast með engar aðrar tekjur en ellilífeyrisbæturnar. Og svo koma þessar litlu viðbótargreiðslur úr lífeyrissjóði, þá er ég ekki að tala um örorkuframreikninginn, ég er bara að tala um þær bætur sem fólk á. Þá koma þær og skerða, ekki alveg krónu á móti krónu, en meira en helming fyrir hverjar 10 þús. kr. sem menn byrja að fá út úr lífeyrissjóði, meira en helmingur tapast strax í bótunum. Síðan kemur auðvitað tekjuskatturinn þar á eftir. Ef þetta er ekki óréttlæti í útfærslu á réttindum fólks sem er búið er að skila þjóðinni allri sinni starfsævi, og þá tek ég fram enn og aftur að ég er ekki að tala um örorkulífeyrisþegana sem fá sérstakan framreikning eins og þeir hefðu greitt til þess tíma að þeir hættu að vinna, en hv. þm. tekur alltaf dæmi af örorkulífeyrisþegunum. Ég held við ættum að tala um réttindi þess fólks sem hefur greitt í stuttan tíma og lítið í lífeyrissjóð og á tiltölulega lítil réttindi enn þá, því er nú verr, en vonandi lagast hagur þess fólks í framtíðinni.