Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 14:56:15 (472)

2002-10-10 14:56:15# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[14:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við upphaf þings ræddu stjórnmálaflokkarnir hér á þingi hvaða mál þeir vildu setja í forgang. Mig undrar ekki að Frjálslyndi flokkurinn skuli hafa sett þetta sem eitt af sínum helstu forgangsmálum. Það sem undrar mig er að hér skuli ekki taka til máls fulltrúar allra stjórnmálaflokka til þess að styðja þetta frv. Það gengur út á að styrkja og treysta undirstöður Lífeyrissjóðs sjómanna, og ég kem hér upp fyrst og fremst til að ítreka stuðning minn við þetta frv. og þá hugsun sem þar kemur fram.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur gert rækilega grein fyrir frumvarpinu en þar hefur komið fram að staða Lífeyrissjóðs sjómanna er mjög veik. Og það kemur fram í greinargerðinni að tæplega 4,5 milljarða vanti upp á að sjóðurinn standi undir skuldbindingum sínum samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt í lok ársins 2000. Síðan kom fram í máli hv. þm., þótt það sé ekki að finna hér í greinargerðinni, að í árslok 2001 hafi hallinn verið kominn upp í 8%.

Það kom einnig fram í máli hans að samkvæmt lögum er það svo að sé halli lífeyrissjóðanna meiri en 5%, og viðvarandi, beri að skerða réttindi sjóðfélaga. Þetta hefur áður verið gert gagnvart sjómönnum, gagnvart lífeyrisþegum úr sjómannastétt. Það var gert t.d. árið 1999. Þá voru réttindin skert um 11,5% og á árinu 2001 um 12%. Það var einmitt samkvæmt þessari sömu reglu því árið 1998 hafði hallinn numið tæpum 11 milljörðum, þ.e. 13,6%. Og nú segir hv. þm. að hann hafi um það vitneskju að til standi að skerða enn lífeyrisréttindi sjómanna.

Þá liggur næst við að spyrja: Hver ber ábyrgð á þessu? Hver er skýringin á því að Lífeyrissjóður sjómanna stendur svona illa? Hvers vegna stendur hann að mörgu leyti verr en aðrir lífeyrissjóðir? Er það vegna þess að sjómenn greiða minna í sinn lífeyrissjóð en aðrir? Nei, sú er ekki ástæðan. Ástæðuna er að finna annars staðar. Þá erum við annars vegar komin að ábyrgð útgerðarinnar og hins vegar ríkisvaldsins.

Það kemur fram í greinargerð með þessu frv., og kom fram í máli hv. frsm. Guðjóns A. Kristjánssonar, að útgjöld eða útstreymið úr Lífeyrissjóði sjómanna sé að miklu hærra hlutfalli en í öðrum lífeyrissjóðum vegna örorkubóta. 45% af öllum greiðslum úr Lífeyrissjóði sjómanna eru vegna örorkubóta. Í öðrum lífeyrissjóðum er þetta hlutfall miklu lægra, 20--25%. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að sjómaður sem slasast hugsanlega á unga aldri, eða miðaldra, fær framreiknaðan rétt sinn, sjóðurinn verður þar af leiðandi af iðgjöldum þessa einstaklings og þarf að auki að greiða honum út lífeyri, sömu upphæðina og hann hefði fengið hefði hann starfað fram á lífeyrisaldur. Sjóðurinn verður sem sagt af iðgjaldagreiðslum og þarf að greiða út þennan lífeyri vegna örorkunnar. Með öðrum orðum er þetta eins konar tryggingasjóður fyrir útgerðina og stendur straum af kostnaði við slys í þessari atvinnugrein. Þar erum við m.a. komin að ábyrgð útgerðarinnar gagnvart þessum lífeyrissjóði, og þá er komið að ríkisvaldinu. Á hvern hátt hefur ríkisvaldið komið að Lífeyrissjóði sjómanna á annan hátt en annarra? Jú, í tengslum við kjarasamninga hefur ríkisvaldið iðulega komið að málum gagnvart sjómönnum. Hv. þm. vísaði í kjarasamninga árið 1981 þegar sjómenn afsöluðu sér 2--3% í fiskverði gegn breytingum á lífeyrisréttindum. Meðal annars var tekin upp svokölluð 60 ára regla, að sjómenn gætu farið á lífeyri við 60 ára aldur. Sú regla er ekki í framkvæmd.

Hvað ætlaði ríkið að gera á móti? Ríkið ætlaði að styrkja Lífeyrissjóð sjómanna sem næmi þessum kostnaði, kostnaði við þennan aukna lífeyrisrétt. Það framlag kom ekki og hv. þm. benti okkur á að samkvæmt framreikningi ætti þetta framlag að vera 1,4 milljarðar núna. Ég man ekki betur en að við fyrri umræður þessa máls hafi hæstv. fjmrh., gott ef það var ekki hæstv. núverandi fjmrh. Geir H. Haarde, hugsanlega forveri hans einnig, haft vilyrði úr þessum ræðustóli, góð orð um að það, að reynt yrði að koma til stuðnings Lífeyrissjóði sjómanna. Það hefur hins vegar ekki verið gert en nú vofir yfir sú hætta að það komi annað frv. sem skerði réttindi sjómanna.

Ætla Íslendingar að horfa upp á þetta gerast, að lífeyriskjör íslensku sjómannastéttarinnar verði skert vegna vanefnda ríkisins gagnvart sjóðnum? Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst þetta vera stórmál og vissulega á ábyrgð þingsins, ábyrgð þjóðarinnar, að á því finnist farsæl lausn. Ég styð þetta frv.