Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 15:08:16 (474)

2002-10-10 15:08:16# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það háttar svo til að ég þurfti að vera annars staðar þannig að ég hef ekki fylgst nægilega vel með þeim umræðum sem hér hafa farið fram en þetta mál hefur áður komið til umræðu á Alþingi og er öllum ljós sá vandi sem þarna hvílir á.

Það er nú svo að Lífeyrissjóður sjómanna er sá sem greiðir hvað hæstu greiðslur í örorkubætur. Ef ég man rétt voru á sl. ári um 43% greiðslna úr lífeyrissjóðnum vegna örorku en 42% vegna lífeyris. Hér er því um geysilega hátt hlutfall að ræða í örorkunni. Það hefur oft komið upp í huga mér að þegar gengið var frá samningum um lífeyrissjóði á sínum tíma og 10% reglan var fundin sem gekk þá út á það að menn tækju lífeyri um sjötugt og lífaldur var náttúrlega allt annar en hann er orðinn að ekki er óeðlilegt þó að þessi mál öll séu tekin upp til endurskoðunar. Af tvennum toga skyldi það þó gert. Í fyrsta lagi vegna hinnar miklu örorku sem lífeyrissjóðir greiða, ekki eingöngu Lífeyrissjóður sjómanna heldur lífeyrissjóðir verkafólks en þar hafa örorkugreiðslur hækkað geysilega úr sjóðunum sem aldrei var ætlað að yrði jafnstór og mikill þáttur í starfsemi lífeyrissjóðanna og raun ber vitni. Það hefur auðvitað komið upp í huga mér hvort það sé eðlilegt og rétt ef við tökum dæmi um sjómann sem slasast úti á sjó og verður öryrki, að það skuli ekki vera á ábyrgð tryggingafélaga nema að takmörkuðu leyti, en síðan þegar til lengri tíma er litið, þá sé málið lagt á herðar þess samfélags sem stofnað er um hvern lífeyrissjóð, þ.e. að það séu lífeyrisþegarnir og greiðendur iðgjalda sameiginlega sem sjái um sjóðfélagann, félaga sinn sem hefur lent í því óláni að verða öryrki. Þetta er vissulega mál sem þarf að endurskoða jafnhliða því að endurskoða iðgjöld í lífeyrissjóðina og þá sérstaklega þann ágæta og tilnefnda lífeyrissjóð sem þetta frv. fjallar um, Lífeyrissjóð sjómanna.

Hins vegar er umhugsunarefni hvort það er hlutverk Alþingis að grípa inn í þessi kjaraatriði sjómanna og útvegsmanna. Því miður hefur það allt of oft gerst að löggjafinn hefur gripið inn í kjaramál sjómanna og þá með neikvæðum formerkjum. Það hefur verið gagnrýnt og ég hef tekið undir að óeðlilegt er að löggjafinn sé að blanda sér í kjarasamninga almennt. Lífeyrissjóður sjómanna varð jú upphaflega til vegna mjög langvinnrar deilu togarasjómanna og útgerðarmanna, líklega 1956 ef ég man rétt. Síðan var það um 1960 að farmenn komu inn í sjóðinn og bátasjómenn 1970, en munurinn á milli þessara tveggja hópa, þ.e. farmanna og togarasjómanna annars vegar og bátasjómanna hins vegar, var sá að bátasjómenn borguðu þá upphæð sem nam innan við 75% af kauptryggingu en hinn hópurinn, þ.e. togarasjómenn stærri togaranna og farmenn greiddu hins vegar af heildarlaunum. Þar er hluta skekkjunnar að finna en þessi aðlögun var þó ekki íþyngjandi fyrir Lífeyrissjóð sjómanna þar sem hún átti sér stað á löngum tíma. Og ekki fyrr en upp úr 1980 fóru bátasjómenn að borga hlutfallslega af heildarlaunum og það er orðið svo í dag að þeir borga af heildarlaunum eins og allir gera núna í Lífeyrissjóði sjómanna.

Eftir stendur þó tvennt. Í fyrsta lagi þeir margumræddu samningar sem áttu að vera svokallaðir kjarapakkar eða það átti að gera vel við verkalýðshreyfinguna gegn því að hún færi ekki fram á launahækkanir. Sjómenn óskuðu þá eftir því að Lífeyrissjóður sjómanna greiddi fyrr út úr sjóðnum en hann gerði vegna starfans, vegna starfa sjómannsins. Það var samþykkt á Alþingi og væntanlega hefur það nú komið fram áður að það skyldi gert, að Lífeyrissjóður sjómanna gæti greitt sjómönnum eftir 25 ára starf á sjó lífeyri við 60 ára aldur. Hins vegar var gallinn sá við þá löggjöf og í tengslum við kjararsamningana að það fylgdi engin ávísun með frá löggjafanum um það hvernig ætti að mæta þessum auknu greiðslum jafnhliða því eins og fram hefur komið að þessi sjóður greiðir hvað mest í örorku af lífeyrissjóðum landsins.

Það hefði auðvitað verið eðlilegt að þeir aðilar sem sitja við borð kjarasamninga, útgerðarmenn og sjómenn, og þeir sömu aðilar sem sitja líka við stjórnvöl lífeyrissjóðsins settust niður, þessir fjórir hópar þótt þeir séu faktískt kannski tveir sameinaðir og færu yfir þessi mál sem snúa að greiðslugetu lífeyrissjóðsins, þ.e. þeim skuldbindingum sem hann hefur tekið á sig, og fyndu lausn á því máli.

Enn kem ég aftur að þeim stóra þætti lífeyrissjóðsins sem er örorkan en eins og ég gat um áðan er hún stærri liður í útborgun úr sjóðnum heldur en lífeyririnn sem segir allt til um það mikla álag og þá slysahættu sem fylgir sjómannsstarfinu. Það er því eðlilegt að aðilar setjist niður og finni flöt á því máli. Ég er ekki hér með að lýsa andstöðu minni við frv. en ég er hins vegar að segja að skoðun mín er óbreytt frá því að löggjafinn sé að setja lög á kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna eða hvort hann er að setja lög til hagsbóta fyrir hópinn, þ.e. sjómenn. Ég tel að það sé eðlilegt og í anda þess sem ég hef áður sagt á fyrri þingum þegar kjaradeilur hafa verið uppi, að það séu hinir frjálsu samningsaðilar sem finni leið til þess að leysa þann vanda sem snýr að skuldbindingum Lífeyrissjóðs sjómanna.

Nokkrum sinnum áður hafa komið fram frv. til breytinga á lögum sem hafa skert rétt sjóðfélaganna vegna íþyngjandi skuldbindinga sem einkum hafa þá snúið að örorkunni. Lögum um Lífeyrissjóð sjómanna hefur verið breytt vegna flýtitökuréttar eftir 25 ára starf við 60 ára aldur. Það er því ekki orðið eins eftirsóknarvert að taka lífeyri úr Lífeyrissjóði sjómanna við 60 ára aldur eftir 25 ára starf vegna þess að skerðingarákvæðin frá 60 til 65 ára eru með þeim hætti að eðlilegt er að menn bíði þess aldurs sem hin almenna regla lífeyrissjóðsins hljóðar upp á.

Herra forseti. Ég vildi aðeins koma þessum hugrenningum að og þeim vanda sem Lífeyrissjóður sjómanna stendur frammi fyrir svo og aðrir lífeyrissjóðir verkafólks vegna hárrar greiðslu örorkubóta úr sjóðunum. Ég tel að menn þurfi að setjast niður við að finna greiðslumáta á þessu með öðrum hætti en þeim að við örorku sé henni velt yfir á sjóðfélaganna. Ef sjóðfélagi verður öryrki um langan tíma, hljótum við að verða að finna annan flöt á því máli. Og það er alveg ljóst að ef örorkuþátturinn hefði ekki verið tekinn inn í lífeyrissjóðina, þ.e. að hann sé hluti greiðslna úr lífeyrissjóði við örorku, þá stæðu lífeyrissjóðir almennt miklu betur, Lífeyrissjóður sjómanna og lífeyrissjóðir verkafólks. Það er alveg ljóst. Þess vegna held ég að vandinn sem taka þarf á séu skuldbindingar sjóðanna sem lúta að örorkumálum.

Eins og ég sagði áðan er ég ekki að setja mig upp á móti frv. þó að skoðun mín sé sú að þetta eigi að gerast á hinum frjálsa vinnumarkaði en ég mun ekki setja mig upp á móti frv.