Lífeyrissjóður sjómanna

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 15:17:45 (475)

2002-10-10 15:17:45# 128. lþ. 8.5 fundur 12. mál: #A Lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst ekki nægja hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni að segja að hann setji sig ekki á móti frumvarpinu. Ég skil afstöðu hans, þ.e. hann vill að menn semji um þessa hluti á frjálsum markaði. Ég get ekki ímyndað mér annað en að sjómenn hafi hvað eftir annað reynt að ná fram leiðréttingu á þessum málum. Ég tel það fullvíst. Þess vegna spyr ég hv. þm. hvort honum finnist ekki eðlilegt í stöðunni --- ræðumenn hafa hér rakið söguna --- og sanngjörn krafa, að með lögum verði útgerðarmönnum gert að leggja á sig aukabyrðar um hríð. Það er ekki eins og verið sé að fara fram á aukin réttindi. Það mundi leiða til þess að það yrði status quo. Finnst honum ekki eðlilegt að þingið komi að þessum málum miðað við þau loforð sem voru gefin um 60 ára réttindin á sínum tíma, sem er líka búið að taka úr sambandi? Menn hafa orðið fyrir skerðingu og hafa misst réttindi, m.a. 60 ára regluna sem samið var um.

Spurningin er einfaldlega hvort hv. þingmaður telji ekki að þetta sé kjörin leið til að koma réttindamálunum á skrið. Er yfir höfuð nokkuð óeðlilegt við það, þó að hann aðhyllist frjálsa samninga, að Alþingi komi að þessum málum vegna þess að Alþingi er beintengt málinu að hálfu leyti á móti útgerðarmönnunum, þ.e. hvað varðar 60 ára regluna? Þessi mál hjakka náttúrlega í sama farinu eins og verið hefur ef menn taka ekki á þeim með tillögum af þessu tagi. Eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson benti á stendur sjóðurinn frammi fyrir enn frekari skerðingum ef ekkert verður að gert. Á bara að bíða eftir því, hv. þm.?