Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:11:51 (486)

2002-10-14 15:11:51# 128. lþ. 9.91 fundur 170#B Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:11]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég tek til máls undir þeim lið sem við ræðum nú, þ.e. um störf þingsins, en nú er svo komið að það eru orðin þrjú mál undir. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf hér áðan um að Ísland væri á ný orðið fullgildur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Ég ætlaði að tala til að styðja mál Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi öryrkjana en ég ætla ekki að fjalla um rjúpuna. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur af málefnum öryrkja og samstarfi Öryrkjabandalagsins við ríkisvaldið á sama tíma og við erum að fara í fjárlagagerðina. Við höfum farið yfir fjárlagafrv. en ekki er hægt að sjá nein merki þess í fjárlagafrv. að lyfta eigi grettistaki varðandi hagi fatlaðra og öryrkja. Því hvet ég alla þingmenn að vinna að fjárlagagerðinni með það markmið í huga sem Öryrkjabandalagið hefur sem viðmiðun, en það eru viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna og almenn mannréttindi. Ljóst er að Öryrkjabandalagið fer fram með lágmarkskröfur og þess verða að sjást merki við afgreiðslu fjárlaganna að undirtektir séu við kröfugerð þeirra ef við ætlum að fara með sæmd inn í næsta ár sem er Evrópuár fatlaðra.