Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:13:56 (487)

2002-10-14 15:13:56# 128. lþ. 9.91 fundur 170#B Alþjóðahvalveiðiráðið, Evrópuár öryrkja, rjúpnaveiðitíminn# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa samfagnað með mér í því að við skulum vera komin í Alþjóðahvalveiðiráðið á ný. Eins og hv. þingmenn vita er það grundvallaratriði fyrir því að geta hafið hvalveiðar að vera aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu og með því að vera með viðurkenndan fyrirvara þá erum við að horfa til langtímahagsmuna Íslands í hvalveiðum í atvinnuskyni. Hins vegar opnar aðildin fyrir okkur möguleikann á því að hefja hvalveiðar í vísindaskyni sem við höfðum ekki áður en við gengum í Alþjóðahvalveiðiráðið. Þar með höfum við engu fórnað í því að geta hafið hvalveiðar. Þetta er spurning um hvers konar hvalveiðar við munum hefja. Það hefur alltaf komið fram hjá mér að við mundum fyrst hefja hvalveiðar í vísindaskyni og að hvalveiðar í atvinnuskyni væru eitthvað sem við stefndum síðan að í framtíðinni. Sú viðbót sem gerð var við fyrirvarann að þessu sinni hefur því engin praktísk áhrif á það hvernig málununum vindur fram. Hins vegar er dálítið erfitt að gera hv. þingmönnum Samfylkingarinnar til geðs í þessu máli. (Gripið fram í: Ha!) Ég vil þó sérstaklega þakka þingflokksformanninum, hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir mjög jákvæð orð úr ræðustólnum. Þegar málið gekk ekki upp á fundinum í Shimonseki í Japan var ég gagnrýndur af hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur fyrir að hafa þá ekki breytt fyrirvaranum nægilega mikið til þess að við kæmumst í Alþjóðahvalveiðiráðið en nú er ég gagnrýndur af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir að hafa breytt honum of mikið.

Herra forseti. Þannig er bara lífið í pólitíkinni. Ég læt það ekki hafa áhrif á það að ég er mjög ánægður með að við skulum vera komin í Alþjóðahvalveiðiráðið aftur og nú með fyrirvara um hvalveiðibann.