Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:32:04 (493)

2002-10-14 15:32:04# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2002. Frv. til fjáraukalaga er lagt fram til þess að leiðrétta tölur í fjárlögum yfirstandandi árs. Lögin um fjárreiður ríkisins kveða á um hvernig með skuli fara, bæði vinnu og framlagningu fjárlaga og eins líka fjárlagafrv. Í 29. gr. er kveðið svo á um: ,,Ríkisaðilar í A-hluta skulu hverju sinni afla heimilda í lögum til að kaupa, selja, skipta eða leigja ...`` Og sömuleiðis skuli þeir líka í rekstri sínum halda sig innan veittra heimilda fjárlaga. Einungis er heimild ríkisins til þess að hafa afskipti af því á milli fjárlaga ef upp koma ófyrirsjáanleg atvik.

Í 43. gr. laganna um fjárreiður ríkisins stendur: ,,Ef þörf krefur skal í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir.`` Þær heimildir eru einungis nýttar t.d. í eftirfarandi tilvikum: ,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.``

Herra forseti. Afar þröngur stakkur er því skorinn varðandi beitingu fjáraukalagaheimildarinnar. Ég hef áður mælt fyrir því á Alþingi að frv. til fjáraukalaga sé einnig unnið að vori, þ.e. að undir lok vorþings sé frv. til fjáraukalaga unnið, þá sé farið yfir breyttar rekstrarforsendur fyrirtækja og þjónustustofnana á vegum ríkisins. Einnig skuli farið yfir ný lög og nýjar lagasetningar sem hafa áhrif á útgjöldin og í ljósi þeirra aðstæðna skuli flutt frv. til fjáraukalaga og fjáraukalög samþykkt að vori miðað við þær aðstæður sem eru uppi. Afar mikilvægt er, herra forseti, að fjárveitingar séu inntar af hendi samkvæmt ákvörðun þingsins hverju sinni. Aðeins í neyðartilvikum séu fjárheimildir veittar af hálfu framkvæmdarvaldsins en þær þá þegar í stað bornar undir afgreiðslu Alþingis.

Í frv. þessu eru einmitt nokkur tilvik þar sem telja má eðlilegt að framkvæmdarvaldið sjálft hafi tekið þá ákvörðun að veita fjárlagaheimildina með fyrirvara um samþykkt síðar en í öðrum tilvikum hefur framkvæmdarvaldið tekið ákvörðun um fjárveitingarnar og jafnvel ráðstafað þeim áður en þær eru bornar undir þingið. Þetta kann að reynast í sumum tilvikum óhjákvæmilegt en væri þessu breytt í þann farveg að við værum með fjáraukalög tvisvar á ári, að vori og að hausti, væri þingið með það ákvörðunarvald sem því ber samkvæmt lögum. Ég ítreka það hér í upphafi máls míns, herra forseti, að þennan hátt ætti að taka upp og væri þá farið að eðlilegum lögum og þingsköpum.

Í frv. sem hér er til umræðu, frv. til fjáraukalaga, er farið yfir ýmsar forsendur sem hafa breyst eða staðist varðandi fjárlögin eins og þau voru afgreidd. Hæstv. fjmrh. rakti það m.a. að hagvöxtur muni að öllum líkindum standa í stað á þessu ári. Fjárfestingar muni dragast nokkuð saman miðað við fyrri ár og ekki halda verðgildi sínu. Einkaneyslan dregst aðeins minna saman er gert var ráð fyrir. Viðskiptakjörin við útlönd verða betri en ráð var fyrir gert og sömuleiðis er staðan varðandi verðlagsþróun nokkru betri en ráð var fyrir gert þannig að eins og horfir fyrir þetta ár mun verða komið á þokkalegt jafnvægi.

Þó að sjálfsagt sé að gleðjast yfir þeim þætti, að þetta skuli nást og vonandi tekst að fylgja því eftir á næstu árum, þá mega menn ekki gleyma því að sá mikli viðskiptahalli sem hefur safnast upp á undanförnum árum, gríðarlega mikill viðskiptahalli, stendur enn og hann stendur enn ógreiddur. Því er afar mikilvægt að menn átti sig á því að hann hverfur ekki nema hann sé greiddur niður. Þó að við getum nú á vissan hátt varðandi fjárhag okkar glaðst yfir því að staða dollarans skuli hafa veikst gagnvart íslensku krónunni og þar af leiðandi hafi lán sem hafa verið bundin í dollurum líka lækkað miðað við íslenska mynt og þó svo að vaxtakjör í Bandaríkjunum hafi breyst á þann hátt að vextir þar hafi lækkað mjög þannig að vextir af lánum sem við erum með bundin í dollurum hafi líka lækkað og þar með hafi lést á vaxtabyrðinni og greiðslum vaxta af erlendum lánum, þá er það til lengri tíma litið ekki hagur fyrir viðskipti okkar og viðskiptalíf að efnahagslægðin í Bandaríkjunum og sá mikli greiðsluhalli og viðskiptahalli sem þar er sé viðvarandi því að hann mun ekki styrkja efnahagslíf okkar til lengdar og verður þá ekki heldur til þess að við getum reiknað með því að skuldir okkar þar haldi áfram að lækka bara vegna gengisbreytinganna. Því er mikilvægt að átta sig á því að erlendar skuldir hvorki ríkisins né þjóðarbúsins hafa verið greiddar niður á þessu ári en að því þurfum við að sjálfsögðu að stefna.

Varðandi þær tölur sem hér eru lagðar til í fjáraukalagafrv. og hæstv. ráðherra hefur getið um heildartöluna, þá er þetta bara frv. sem lagt er fram og ljóst að það mun eiga eftir að breytast í meðförum þingsins. Okkur er kunnugt um að þar vantar á verulega háar upphæðir. Háar upphæðir vantar til heilbrigðiskerfisins, daggjaldastofnana, hjúkrunarheimila og menntakerfisins þar sem safnast fyrir skuldir. Því er ljóst að til þess að rétta af þá starfsemi sem er í gangi og við viljum að haldi óbreyttum styrk sínum, þá þarf að gera verulegar breytingar á.

Hæstv. fjmrh. minntist á að greidd hefði verið niður skuld Tækniháskólans og er það vel. Í umfjöllun um fjárlög á síðasta vetri var einnig bent á hversu miklar skuldir hvíldu á öðrum framhaldsskólum og stæðu rekstri þeirra hreinlega fyrir þrifum, þeir bæru skuldahala og ótryggan fjárhag ár eftir ár. Ég nefni t.d. Menntaskólann í Kópavogi, matvælasviðið þar og reyndar verknáms- og heimavistarskóla vítt og breitt um landið sem eru með skuldir á herðunum og búa auk þess við mjög ótryggt rekstrarástand. Þeir búa við reiknilíkan sem heldur áfram að mismuna þeim frá ári til árs verði þar ekki breyting á. Í frv. er ekki tekið á uppsöfnuðum rekstrarvanda þessara skóla þó svo vitað hafi verið um hann. Vitað var um hann við afgreiðslu fjárlaga þannig að menn eru áfram að flýja frá vanda sem hefði átt að leysa.

Ég vil einnig minnast á Ríkisútvarpið. Hér er að vísu lagt til að endurgreitt verði til Ríkisútvarpsins sú lækkun á afnotagjöldum eða frestun á heimildum til hækkunar afnotagjalda sem var ákveðin á sl. vori reyndar af ríkisstjórninni án þess að það færi fyrir Alþingi eða fjárln., þar var verið að breyta fjárlögunum í sjálfu sér. Lagt er til að sú upphæð verði greidd eins og þá hafði verið gefið vilyrði fyrir, en áfram er rekstrarvandi Ríkisútvarpsins óleystur og Ríkisútvarpið látið bera hundruð millj. kr. í halla í skuld frá ári til árs og er í óvissu með rekstur sinn. Því er fjarri að hér sé verið að taka af ábyrgð á málum eins og ætti annars að gera.

Ég vil líka benda á, herra forseti, að í niðurstöðutölum fyrir þetta ár, fjárlögum þessa árs, er áfram gert ráð fyrir því að sala á ríkiseignum upp á 15,5 milljarða kr. gangi eftir. Enn þá er reiknað með þeirri tölu í niðurstöðutölum fyrir þetta ár. Enn þá er meginhluti þessara eigna óseldur og þær tekjur sem gert er ráð fyrir að komi þarna inn fyrir sölu eigna eru ekki búnar að skila sér þannig að þetta er enn þá úti í skóginum. Ég verð að segja, herra forseti, að ég tel reyndar að fresta eigi sölu bankanna eins og hún hefur verið fyrirhuguð á undanförnum mánuðum og stefnt er að hvernig að henni verður staðið og taka þau mál til algjörrar endurskoðunar, allt söluferlið á bönkunum. Því er allt of snemmt að gera ráð fyrir þeim tölum nú inn í niðurstöður fjárlaga.

Ég vil þó benda á í því sambandi að hæstv. ráðherra gat þess að fyrir utan eignasölu væri gert ráð fyrir 2--3 milljarða kr. afgangi á ríkisbúskapnum á þessu ári en trú mín er sú að þegar búið er að taka til nauðsynlegra þátta eins og leiðréttingu á fjárhag heilbrigðiskerfisins, sjúkrahúsanna, hjúkrunarheimilanna og nokkurra annarra brýnna verkefna, þá verði sá afgangur sem þarna er gert ráð fyrir farinn fyrir bí, farinn inn í nauðsynleg rekstrarviðfangsefni.

Einnig er vert að geta þess að sú eignasala, ef af verður, rennur ekki til aukinna framkvæmda á vegum ríkisins því að framkvæmdir á þessu ári og reyndar hinu síðasta og nokkrum síðustu árum hafa verið í algeru lágmarki miðað við það sem eðlilegt er að ríkið standi við og standi undir í uppbyggingu á verkefnum og þjónustustarfsemi sinni og þess vegna er slík eignasala í rauninni, ef af verður, að ganga inn í rekstur og greiðslu á rekstrarskuldum. Þetta er vert að hafa í huga. Ekki er búmannlegt að selja eigur sínar, kannski bestu framleiðslutækin sín til þess að standa undir rekstrarkostnaði og rekstrarskuldum eins og hér er gert ráð fyrir.

[15:45]

Herra forseti. Ég fer ekki mjög ítarlega í einstaka liði í þessu fjáraukalagafrv. Þeir eiga eftir að breytast verulega. Ég vil ítreka það sem ég sagði í upphafi að fjáraukalög eiga að vera til þess að sýna vilja þingsins í að leiðrétta eða bæta úr og auka við ákveðna útgjaldaliði, og sömuleiðis leiðrétta tekjuhlið á frv. á yfirstandandi fjárlögum, og ber að fara með það samkvæmt því, en ekki að þetta sé einhvers konar stimpill fyrir afgreiðslu sem ríkisstjórnin hefur þegar tekið. Því miður eru allt of mikil brögð að því. Það væri miklu nær að við værum með fjáraukalög að vori sem tækju til þeirra breytinga sem þingið hefði þá ákveðið á undangengnum vetri og einnig til breyttrar rekstrarstöðu hinna ýmsu fyrirtækja. Þá hefði t.d. ekki þurft að koma upp sú staða að til þess að rétta af fjárhag einstakra sjúkrahúsa væri heilum deildum lokað, deildum sem ég býst við að þingið hefði verið sammála um að ætti ekki að loka, eða ættu að standa framarlega í forgangsröð í ráðstöfun fjár. Ég nefni t.d. boðaða lokun á Landakoti á deild fyrir alzheimersjúklinga síðasta sumar vegna fjárskorts. Ef þingið fengi að koma að ákvörðunum fjárveitinganna með reglubundnum hætti eins og því ber lögum samkvæmt mundi það ekki gerast.

Virðulegi forseti. Þessu frv. til fjáraukalaga verður vísað til 2. umr. og fjárln. þar sem nánar verður farið í einstaka þætti þess. Ég sit í fjárln. fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og þar munum við fara yfir einstaka þætti frv.