Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:47:22 (494)

2002-10-14 15:47:22# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að láta því ómótmælt sem hv. þm. hélt hér fram, alveg eins og hann hefði ekkert hlýtt á upphafsræðu mína, að tekjum af eignasölu væri varið til þess að greiða niður rekstur. Þetta er algjör fjarstæða, hv. þingmaður. Það er gert ráð fyrir 21 milljarðs kr. lánsfjárafgangi sem að mestum hluta verður til vegna fyrirhugaðrar eignasölu. Þar af fara 9 til þess að minnka framtíðarskuldbindingar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, 4 í að borga niður lán umfram nýtekin lán en 8 til þess að bæta stöðu ríkissjóðs í Seðlabankanum, þ.e. auka inneignir ríkisins í Seðlabankanum.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvað er hann að fara með þessum málflutningi? Í hvaða rekstur fer þessi lánsfjárafgangur og þetta söluandvirði sem hann er reyndar andvígur að verði aflað því að hann er á móti sölu ríkisfyrirtækja eins og hér kom fram í máli hans? Ég bið þingmanninn að finna orðum sínum stað um þetta efni.