Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:48:33 (495)

2002-10-14 15:48:33# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefði átt að tala hægar en fylgjast betur með því sem ég sagði. Ég sagði, og endurtek það hér, herra forseti, að fyrirhugaðri eignasölu er ætlað annars vegar að standa undir rekstri og hins vegar rekstrarskuldum ríkissjóðs. Þeim væri ekki varið til aukinna framkvæmda á vegum ríkissjóðs --- ég vona að hæstv. fjmrh. skilji þetta --- heldur rekstrarskulda fyrri ára.

Ef hæstv. ráðherra flettir upp í frv. og þeim gögnum sem fylgja fjárlögum og þjóðhagsáætlun sér hann að kostnaður við framkvæmdir á vegum ríkisins hefur staðið í stað eða lækkað í krónutölum og rauntölum síðustu ár þannig að sala eigna hefur ekki runnið til þess og ekki heldur til þess að greiða lán vegna aukinna framkvæmda heldur til þess að greiða niður rekstrarskuldir. Þær þarf að greiða niður og ég er sammála hæstv. ráðherra í að rekstrarskuldirnar þarf að greiða niður. En það er jafnbölvað að þurfa að selja eignir til þess að standa undir rekstrarskuldum.

Ég tel reyndar, herra forseti, að það sé ekki heldur rétt hjá hæstv. ráðherra --- og ég gat þess hvergi í máli mínu --- að ég sé andvígur allri hugsanlegri sölu á fyrirtækjum á vegum ríkisins. En í fyrsta lagi eru það ákveðin almannaþjónustufyrirtæki sem ekki eiga að vera til sölu og í öðru lagi, þegar maður selur fyrirtæki á að gera það með skikkanlegum hætti á opinn og hreinskilinn hátt og eftir þekktum leikreglum.