Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 15:50:31 (496)

2002-10-14 15:50:31# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. gat alls ekki fundið orðum sínum stað. Það er ekki verið að verja söluhagnaði af ríkiseignum til þess að fjármagna einhvern rekstur. Það er rekstrarafgangur, jafnvel þó að við sleppum öllum söluhagnaðartekjunum, og það er gríðarlegur rekstrarafgangur af venjubundinni starfsemi ríkissjóðs ef maður sleppir því sem lagt er til hliðar og gjaldfært sem rekstrarkostnaður vegna lífeyrisskuldbindinga.

Ég endurtek þess vegna: Við búum í haginn með því að greiða niður skuldir annars vegar, við borgum í beinhörðum peningum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna framtíðarskuldbindinganna þar --- ekki er hægt að kalla það rekstrarskuldir --- og hins vegar byggjum við upp inneign í Seðlabanka Íslands. Ég held að þingmaðurinn ætti aðeins að athuga málflutning sinn betur.