Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:22:14 (501)

2002-10-14 16:22:14# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:22]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Austurl. ræddi nokkur mál sem varða heilbrigðismálakafla frv. Í fyrsta lagi fjallaði hann um Landspítalann og spurði hvað væri verið að bæta með 1.200 millj. kr. Það er verið að greiða það upp í uppsafnaðan halla sjúkrahússins. Ljóst er að ef hreinsa ætti upp það sem er uppsafnað hjá spítalanum þyrfti þessi upphæð að vera um 1.600 millj. til að spítalinn gæti haft með sér milli ára u.þ.b. 300--400 millj. kr. sem talinn er viðráðanlegur greiðslufrestur. Það er enn verið að skoða þessi mál og fara yfir þau. En þetta er til að mæta breytingum á greiðsluflæði á árinu.

Á hjúkrunarheimilunum er verið að taka svokallað RAI-mat í notkun, mat á hjúkrunarþyngd. Það er orðið viðurkennt mælitæki þannig að við munum nota það til að deila út fjármunum á hjúkrunarheimilin. Hins vegar er enn verið að skoða dvalarheimilishlutann af öldrunarþjónustunni.

Varðandi þjónustusamninga við Læknavaktina er verið að skoða hvernig staðið verður að því. Ég hef ekki niðurstöðu af því enn þannig að tölur um hana liggja ekki fyrir.

Á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hafa aðlögunarsamningar verið þar til skoðunar. Reglan er sú að menn hafa dregið úr kostnaði á móti. Það er verið að kanna með hverjum hætti það verður gert en mér er kunnugt um að menn hafa talið sig skorta fjármagn til þess.