Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:28:07 (503)

2002-10-14 16:28:07# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég þakka mönnum fyrir málefnalega umræðu um frv. til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi ár. Ég mun leitast við að svara nokkrum spurningum sem til mín hefur verið beint en mun að öðrum kosti reyna að tryggja að fjárln. berist þær upplýsingar sem hér hefur verið leitað eftir takist mér ekki að svara því sem um hefur verið spurt þannig að viðkomandi telji að fullnægjandi sé.

Ég vil þó aðeins í upphafi fara nokkrum orðum almennt um hugmyndina að fjáraukalögum í þeim búningi sem þau eru núna og það sem hér hefur gerst í þessum efnum eins og ýmsir hafa verið að tala um. Ég tel að veruleg betrumbót hafi orðið í þessum efnum eftir setningu laganna um fjárreiður ríkissjóðs og þá framkvæmd sem þá var komið á varðandi þessa hluti. Ég er auðvitað líka sammála því sem menn nefndu hér, að það er mönnum til hagsbóta og hægðarauka að fjáraukalagafrv. komi fram í upphafi þingsins, þ.e. á fyrstu dögum þess eins og nú gerðist til að fjárln. gefist betra tóm til að fara yfir málið og gera það hugsanlega samhliða fjárlagafrv. Það flýtir fyrir og getur sparað vinnu, bæði hjá nefndinni og ýmsum sem hún kallar fyrir sig. Þeir þurfa þá ekki að koma tvær ferðir.

Hins vegar tel ég að það sýni sig að betur hefur tekist að ná utan um þau ófyrirsjáanlegu atvik sem fjáraukalögunum er ætlað að mæta en áður var þó að við munum að sjálfsögðu aldrei nokkurn tíma geta komið í veg fyrir að þörf skapist fyrir frv. af þessu tagi vegna ófyrirséðra atvika, nýrrar löggjafar eða nýrra ákvarðana. Frv. til fjáraukalaga munu að sjálfsögðu ekki hverfa þó að upphæðirnar í þeim fari vonandi lækkandi, í það minnsta sem hlutfall af niðurstöðutölu fjárlaganna.

[16:30]

Mig langar að geta þess að fjáraukalög voru afgreidd frá Alþingi 1998 fyrir það ár með 14,7 milljarða útgjaldaaukningu frá því sem var í fjárlögum þess árs og árið eftir með 10,5 milljarða útgjaldaaukningu miðað við fjárlögin 1999. Árið 2000 var bætt við 8,2 milljörðum með fjáraukalögum við fjárlögin það ár og í fyrra afgreiddi Alþingi fjáraukalög með 15 milljarða útgjaldaauka miðað við fjárlög ársins 2001. Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að útgjöld aukist um 7,3 milljarða sem eru u.þ.b. 3% af niðurstöðutölu fjárlaga þessa árs.

Nú er auðvitað ekki lokið endanlegri umfjöllun um málið þannig að vera má að þessi tala hækki í meðförum þingsins. Það er ekki ólíklegt. Eigi að síður tel ég sýnt að hér er á ferðinni töluverður árangur í því að reyna að sjá til þess að þörfin fyrir umframútgjöld sé sem lægst.

Síðan má endalaust um það deila hvort einstök málefni eða einstakar upphæðir í fjáraukalögum hefðu hugsanlega verið fyrirsjáanlegar. Voru þær heimildir sem hér er gert ráð fyrir að bætist við 7. gr. fjárlaga fyrirsjáanlegar eins og hv. þm. Gísli S. Einarsson spurði um. Ég tel ekki að svo sé, í það minnsta í yfirgnæfandi tilvikum. Ég nefni dæmi: Hér er veitt heimild til þess að kaupa fasteignina Gljúfrastein í Mosfellsbæ. Engin ákvörðun lá fyrir um það þegar fjárlög ársins voru afgreidd. Það var síðan ákveðið á vormánuðum að ganga til slíkra samninga við eigendur þessarar eignar. Slíkur samningur var gerður, en að sjálfsögðu með fyrirvara um heimild Alþingis, sem við erum núna að óska eftir að verði veitt.

Hið sama er að segja um aðra liði hér eins og t.d. þá ósk sem hér kemur fram um að keyptur verði bústaður fyrir skólameistara Menntaskólans á Ísafirði. Það mál er líka fram komið á þessu ári og er í vinnslu. Svona mætti lengi telja.

Ég held að að því er varðar þessa liði sé það svo að þetta sé allt nýtt, hlutir sem hafa komið fram eftir að fjárlög yfirstandandi árs voru afgreidd. Auðvitað reyna menn að haga því þannig til.

En það er hins vegar alveg rétt að í þessu frv. til fjáraukalaga eru liðir sem mönnum koma kannski á óvart og enginn okkar í þingsalnum gat vitað um þegar við afgreiddum fjárlögin. Eitt af því var heimsókn Kínaforseta, vegna þess að að henni var mjög stuttur aðdragandi. Sá þjóðarleiðtogi gerir ekki boð löngu á undan sér þegar hann heimsækir önnur lönd, heldur er aðdragandi slíkra heimsókna mjög stuttur. Annaðhvort geta menn þá tekið á móti gestinum eða menn geta ekki tekið á móti. Það var ákveðið að taka á móti honum eins og allir muna og kostaði það þessar upphæðir og þá er ekkert um annað að gera en að horfast í augu við þann útgjaldaauka í fjáraukalögum.

Eins er með þær upphæðir sem hér er verið að bæta við vegna utanríkisráðherrafundar NATO þar sem útgjöldin þar voru óviss að vissu marki.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði um bílakaup tveggja ráðherra og af hverju bifreið fyrir forsrn. kostaði 2,5 millj. aukalega, en landbrh. 3 millj. Ég geri ráð fyrir því, án þess að ég geti nú alveg fullyrt um það, að þetta skýrist af því að uppítökubílarnir hafi verið misjafnlega verðmætir. Reyndar er ekki alveg um sams konar bifreiðar að ræða þarna þannig að ég þekki það nú ekki nákvæmlega. En ég legg til að þingmaðurinn grennslist betur fyrir um þetta í fjárln.

Um síðan ýmis önnur verkefni á vegum forsrn. sem hv. þm. nefndi þá t.d. er það þannig varðandi Þjóðhildarkirkju og verkefnið í Brattahlíð að því miður var þar um að ræða ógreidda reikninga sem sýnt var að greiða bar. Þá verðum við að taka svona á því máli þó að tvö ár séu liðin frá því það hefði átt að vera uppgert því þessir reikningar eru vegna ársins 2000. Hér verður ekkert um neinn fastan lið að ræða eins og þingmaðurinn spurði um heldur er endanlegu uppgjöri vegna þessara ágætu framkvæmda vonandi lokið.

Að því er varðar sýninguna Islandica sem þrjú ráðuneyti beittu sér fyrir fyrir örfáum árum verður að segja eins og er að því miður fór það verkefni fram úr áætlun. Það má kannski segja sem svo eftir á að kannski hafi ekki verið hyggilegt að ráðuneytin sjálf væru að beita sér fyrir þessu verkefni því það er nú oft þannig að ýmsir aðilar sem að slíku koma hafa minni samúð með útgjöldum og kostnaði ef ráðuneytin eða ríkið tekur á sig alla ábyrgð. Þarna var sem sagt framúrakstur upp á 4,2 millj. sem er óuppgerður og nú er meiningin að reyna að ljúka því máli. Ég geri ekki ráð fyrir því að þessi þrjú ráðuneyti taki sig bráðlega saman aftur um eitthvað sambærilegt verkefni eða sambærilega sýningu. Ég held ekki að reynslan af henni hafi verið þess eðlis.

Varðandi efnahagsrannsóknir í forsrn. og annað sem hv. þm. spurði um þá hafa umsvif þarna orðið meiri en ráð var fyrir gert í fjárlögunum og því er óskað eftir aukafjárveitingu upp á 10 millj. kr. til þess að geta staðið undir þeim verkum. Að sjálfsögðu má segja að það sé hefðbundin ósk og auðvitað þingsins að staðfesta hana eða hafna henni.

Að því er varðar að lokum spurningar hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um skuldamál ríkisins þá hef ég óskað eftir því að þær upplýsingar sem hann hefur beðið um verði allar lagðar fyrir í fjárln. Ég tel ekki að það sé neinum vandkvæðum bundið. Ég hef þær ekki hér við höndina. Þó er ljóst að mikið hefur áunnist á undanförnum árum í skuldamálum ríkissjóðs. Við höfum náð að grynnka á skuldum okkar og skuldbindingum og þar af leiðandi vaxtakostnaði okkar, m.a. með því að minnka heildarskuldirnar. En auðvitað hafa menn að einhverju leyti notið góðs af því á erlendum lánum að vextir á alþjóðlegum mörkuðum hafa verið mjög lágir. Það er vissulega alveg rétt. Ef ég man tölurnar þá hefur á örfáum árum tekist að minnka muninn á þeim vöxtum sem ríkið greiðir og þeim vöxtum sem ríkið fær af þeim lánum sem það hefur veitt um 4,4 milljarða. Á næsta ári er vaxtakostnaður hálfum milljarði lægri en á þessu ári samkvæmt áætlun fjárlagafrv.

Einn hv. þm., Gísli S. Einarsson, velti vöngum yfir því í máli sínu hvort rekstrargrunnurinn sem við notum væri rangur. Ég held að rekstrargrunnurinn sem við höfum tekið upp gefi miklu betri mynd af heildarrekstri ríkissjóðs þótt greiðslugrunnurinn gamli sem jafna má við sjóðstreymi hefði kannski verið þægilegri fyrir stjórnvöld undanfarin fjögur, fimm ár, vegna þess að þá hefði afgangurinn verið svo miklu hagfelldari en ella. En rekstrargrunnurinn er betri mælikvarði á það sem fram fer í heildarumsvifum ríkisins og líkari því sem tíðkast í atvinnulífinu. Því þótti eðlilegt hér með tilkomu nýrra fjárreiðulaga að taka upp þennan mælikvarða. Á alþjóðlega vísu er eftir því tekið að Íslendingar hafa gert þetta. Við höfum hlotið mjög jákvæða umsögn fyrir það, t.d. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að við skulum hafa breytt uppgjöri okkar og vinnureglum í þessu sambandi því ekki hefur tekist allt of vel að fá ýmsar aðrar þjóðir til þess að gera hlutina upp á þennan hátt. En auðvitað þyrfti slíkt bókhald að vera samræmt til þess að fá góðan mælikvarða milli landa á framþróun ríkisfjármálanna.