Fjáraukalög 2002

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:45:18 (506)

2002-10-14 16:45:18# 128. lþ. 9.4 fundur 66. mál: #A fjáraukalög 2002# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:45]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra gleggri skýringar á fyrri svörum. Ég átti eftir í fyrri ræðu minni, og vil þá gera það núna, að þakka það hversu vel hefur tekist til tvö síðustu ár varðandi það að leggja fram frv. til fjáraukalaga með þeim hætti sem gert hefur verið. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að það auðveldar auðvitað mjög störf í fjárln. að hafa fjárlagafrv. og fjáraukalagafrv. samhliða í vinnslu. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að mun betur hefur tekist til í því að halda niðri þörf fyrir aukið fjármagn. Hæstv. ráðherra fór með réttar tölur um það að í í þessu fjáraukalagafrv. eru mun lægri tölur en við höfum séð undanfarin ár.

Í ræðu minni áðan fórst fyrir hjá mér að spyrja hæstv. fjmrh. út í eitt atriði og ég held að ég noti þá þetta andsvar til að koma því á framfæri til að stytta umræðuna. Það varðar greiðslu á virðisaukaskatti vegna samnings um gerð fjárhags- og starfsmannakerfis fyrir ráðuneytin. Mig minnir að þetta hafi verið svipað fyrir ári og segir hér í textanum: ,,Í meðferð málsins hafði Fjársýsla ríkisins gert ráð fyrir að virðisaukaskattur yrði endurgreiddur af kerfunum og miðað áætlanir sínar við undirbúning fjárlaga við það.`` Síðan kemur fram að Ríkisendurskoðun og fjmrn. hafi úrskurðað annað.

Ég er að velta fyrir mér hvað hafi í raun og veru breyst frá því í fyrra eða hvort þetta er misminni hjá mér, að það hafi raunverulega verið svipað uppi á teningnum þá og að menn hafi gert ráð fyrir að ekki þyrfti að greiða virðisaukaskatt af þessu fjárhags- og starfsmannakerfi en í ljós hafi komið að það þyrfti að gera það, og mér sýnist nú vera endurtekning á því.