Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 16:48:33 (508)

2002-10-14 16:48:33# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[16:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, en mál þetta er að finna á þskj. 182.

Í frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum um tryggingagjald. Meginbreytingin er sú að lagt er til að sú hækkun á tryggingagjaldi sem samþykkt var með lögum nr. 133/2001, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og fleira, og taka átti gildi 1. janúar nk., gangi til baka að hluta. Er breyting þessi gerð í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar vegna samkomulags við aðila vinnumarkaðarins frá 13. desember 2001 en þar kom fram að gangi verðlagsmarkmið kjarasamninga eftir muni ríkisstjórnin beita sér fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,27% á árinu 2003 og mun því tryggingagjaldið ekki hækka um 0,77% um næstu áramót heldur um 0,5%.

Í öðru lagi er í frv. þessu lögð til breyting sem leiðir af samningsskuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með breytingunni geta menn haldið rétti sínum til almannatrygginga hér á landi þó að þeir flytjist til starfa á erlendum vettvangi að því skilyrði fullnægðu að tryggingagjald vegna starfa þeirra erlendis sé greitt hér á landi. Er með ákvæðinu opnað fyrir þann möguleika að unnt sé að taka við tryggingagjaldi þeirra einstaklinga sem starfandi eru erlendis.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar sem lúta að samræmingu innheimtuúrræða. Í 1. mgr. 3. gr. frv. er lagt til að sömu reglur gildi um innheimtu vangoldins tryggingagjalds í staðgreiðslu og um reiknað endurgjald í staðgreiðslu eftir álagningu. Samkvæmt gildandi lögum fellur aðfararheimild innheimtumanns um staðgreiðslu tryggingagjalds niður við álagningu og innheimtumaður þarf því að tryggja kröfuna á ný eftir álagningu með auknum kostnaði fyrir gjaldandann. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til mun krafan halda gildi sínu eftir álagningu með sama hætti og gildir um aðför sem gerð hefur verið vegna vangoldins reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu.

Í 2. mgr. 3. gr. frv. er lagt til að innheimtumaður fái sömu heimildir til að loka atvinnurekstri vegna vangoldins tryggingagjalds og gildir um ýmsar aðrar skattkröfur, svo sem í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, vörugjaldi o.fl. Til skýringar skal tekið fram að framangreindar lokunarheimildir eiga aðeins við um atvinnureksturinn sjálfan.

Í fjórða og síðasta lagi, herra forseti, er lagt til að felld verði brott úr lögunum nokkur úrelt ákvæði um gjaldflokka tryggingagjalds sem ekki eru lengur í gildi.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.