Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:23:27 (512)

2002-10-14 17:23:27# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:23]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að ganga eigi dálítið til baka með þær ákvarðanir sem teknar voru hér í fyrra, um hækkun tryggingagjaldsins. Verulega íþyngjandi skattahækkun hefur falist í hækkun tryggingagjaldsins á undanförnum árum. Það er ekki eins og þetta sé fyrsta hækkunin heldur síðasta hækkun í röð hækkana á tryggingagjaldi sem staðið hafði yfir í nokkur ár. Ýmis fyrirtæki í landinu voru að borga helmingi lægra tryggingagjald en aðrar atvinnugreinar þurftu að borga. Síðan er búið að vera að leiðrétta þetta, breyta þessu, á undanförnum árum og hækka tryggingagjaldið auk þess. Ég hygg að ýmsir borgi núna margfalt hærra tryggingagjald en þeir borguðu fyrir fáum árum.

Sú breyting sem gerð var í fyrra, hækkun tryggingagjaldsins samfara því að lækka tekjuskatt fyrirtækjanna, var afskaplega óskynsamleg að mínu mati og ósanngjörn. Það er verið að hækka skatta á fyrirtæki sem búa við mikinn kostnað vegna launa. Eins er verið að hækka skatta á fyrirtæki sem ekki sýna hagnað. Það er alveg sérlega óheppilegt að þessi hækkun skuli ganga yfir núna þegar mörg fyrirtæki á landsbyggðinni eiga í erfiðleikum. Menn eiga von á verulegum vandamálum vegna þessara erfiðleika fyrirtækjanna á landsbyggðinni á næstu missirum.

Það mun ekki bæta úr skák að til komi hækkun tryggingagjaldsins, sem er veruleg. Hún kemur verst niður á landsbyggðinni. Segja má að á þessari skattkerfisbreytingu græði enginn landshluti nema suðvesturhornið. Það var reyndar rækilega útskýrt í umræðunum um þetta í fyrra og hefur verið minnt á það hér við umræðurnar núna.

En auðvitað kristallast stefna ríkisstjórnarinnar í þessum ákvörðunum, þ.e. að færa enn þá meiri hagnað til þeirra sem hafa hagnaðinn fyrir og taka þann hagnað einhvers staðar. Í þessu tilfelli er hann tekinn frá þeim sem minna mega sín í atvinnulífinu og færður til þeirra sem minnst þurfa á því að halda, stærstu fyrirtækjanna með mesta hagnaðinn.

Þó svo að hér sé verið að ganga til baka að hluta þá voru tekin þrjú skref aftur á bak fyrir ári síðan og nú stigið eitt skref áfram. Þetta frv. lagar að vísu stöðuna en er ekki nándar nærri nóg. Auðvitað áttu menn að hverfa alveg til baka með hækkun tryggingagjaldsins vegna þess að það er heimskuleg ráðstöfun. Hún á eftir að koma í bakið á mönnum vegna þeirra fyrirtækja sem eiga erfitt með að fá slíka hækkun yfir sig. Eins og ég sagði, það kom hér prýðilega fram í máli hv. þm. Kristjáns Möllers, eru þessi fyrirtæki langflest á landsbyggðinni.

Sveitarfélögin fá þessa hækkun á sig líka og er ekki, nú frekar en endranær, gert ráð fyrir að bæta þeim það upp. Það er ástæða til að minna á það eins oft og þarf að þegar skattkerfisbreytingar eru gerðar sem hafa áhrif eins og þessi þá þurfa menn líka að gera ráð fyrir að rétta af tekjur sveitarfélaganna ekki síður en ríkissjóðs. Þegar þessi skattkerfisbreyting var sett á í fyrravetur var fyrir því séð hvað ríkissjóður ætti að fá og menn horfðust í augu við það en menn horfðust ekki í augu við þær álögur sem þarna var verið að leggja á sveitarfélögin.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Ég lýsi því yfir að það er skömminni skárra að fá þessa breytingu en ég tel að snúa hefði átt baki við þeirri stefnu sem mótuð var í fyrra með þeim breytingum sem m.a. eru hér til umræðu.