Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:39:26 (516)

2002-10-14 17:39:26# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:39]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég á mér líka þann draum að sú sýn sem hæstv. fjmrh. hefur á þær skattkerfisbreytingar sem gerðar voru, þ.e. lækkun á tekjuskattshlutfallinu, hafi í för með sér það sem hann var að lýsa. Ég vona svo sannarlega að fyrirtækjarekstur muni eflast og ný fyrirtæki verði stofnuð vegna þessa.

En ég neita því ekki samt sem áður að hækkun tryggingagjaldsins og að það skuli vera gert svona eins yfir allt landið gerir það að verkum að þetta kemur misjafnlega niður. En sannarlega er þetta rétt.

Ég vil hins vegar skjóta því inn líka fyrst við erum að ræða um samkeppnishæfni fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni sem ég vil að sé jöfn, engin forréttindi úti á landi, alls ekki, að þá bendi ég á það sem við höfum margoft rætt um, þ.e. stórhækkun flutningsgjalda. Í svona stuttu andsvari höfum við ekki tíma til að fara út í það. En við vitum hvernig þungaskatturinn hefur verið að hækka flutningskostnað. Ýmsir aðrir skattar hafa verið að hækka. Breytingar á sjóflutningum hjá þeim sem enn þá stunda strandsiglingar. Allt þetta stóríþyngir fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni. Og það er alveg sama hvert farið er, herra forseti, alls staðar er þetta aðalumkvörtunarefni forsvarsmanna fyrirtækja úti á landi. Á meðan þetta er ekki gert og meðan þetta er ekki jafnað og rekstrarskilyrði fyrirtækja jöfnuð í landinu, þá munum við halda áfram að sjá að fyrirtækjarekstur úti á landi á í erfiðleikum og mun eiga í meiri erfiðleikum, því miður.

Það er sannarlega hárrétt að mörg úrvalsfyrirtæki eru úti á landi, sérstaklega í sjávarútvegi og vonandi eru þau að græða mikla og góða peninga og fá hagnað út úr skattkerfisbreytingunum.

En það sem ég var að tala hér um var meðaltalið af þessu sem kemur fram hjá ríkisskattstjóra, meðaltalið er einfaldlega þetta: Fyrirtæki í Reykjavík og Reykjanesi hagnast um u.þ.b. 2,7 milljarða á þessum skattkerfisbreytingum. Fyrirtæki úti á landi í öllum landsbyggðarskattumdæmunum koma nánast út á núlli. Og það er þetta, herra forseti, sem ég segi að sé misrétti. Þetta er ranglæti og það er illa komið fram í þessum efnum.