Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:47:41 (519)

2002-10-14 17:47:41# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., VÞV (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:47]

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir miður að hv. þm. Kristján Möller skuli blanda Sambandi íslenskra sveitarfélaga inn í þessa umræðu með þeim hætti sem hann gerði. Þar á bæ hafa allir, í hvaða flokki sem þeir eru, verið mjög samtaka og einhuga um að verja hagsmuni allra sveitarfélaga í landinu, bæði smárra og stórra. Á okkur er enginn bilbugur, það er stefna okkar og þannig vinnum við.

Við höfum að sjálfsögðu beitt okkur ákveðið og hart í öllum okkar verkum gagnvart ríkisvaldinu, og mér hefur stundum fundist miður hversu lítill skilningur ríkisvalds hefur verið. Stundum hefur gengið vel, eins og þegar við færðum grunnskólann yfir til sveitarfélaga og með niðurstöður síðustu tekjustofnanefndar, þótt ekki hafi allir verið ánægðir með það. Þannig er nú lífið.

En ég bið hv. þm. um að skilja það sem ég sagði hér áðan ekki sem einhverja skilgreiningu af minni hálfu. Ég nefndi einungis að í þessari umræðu hefði komið fram að sveitarfélögin þyrftu ekki að greiða lengur atvinnuleysisbætur vegna starfsmanna sinna. Í því voru fólgnar töluverðar upphæðir. Ég var ekki að leggja að jöfnu að sú hækkun sem síðan hefði verið boðuð hefði verið jöfnuð út en þetta var rætt á þessum tíma og ég lýsti því yfir að ég væri tilbúinn til þess að kanna hvort þarna hefðu orðið jöfn skipti. En það er fjöldinn allur af öðrum málum í samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem við fáumst við. Ég bið hv. þingmann um að væna ekki stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um að hún reyni ekki að standa sig í stykkinu. Hvort við höfum ætíð náð þeim árangri sem að var stefnt læt ég öðrum eftir að dæma en við höfum reynt að gera okkar besta.