Tryggingagjald

Mánudaginn 14. október 2002, kl. 17:49:25 (520)

2002-10-14 17:49:25# 128. lþ. 9.5 fundur 181. mál: #A tryggingagjald# (lækkun gjalds o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 128. lþ.

[17:49]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það líka miður ef hv. þm. bregst þannig við. Óneitanlega hljóta hækkanirnar sem skattkerfisbreytingin á síðasta ári hafði í för með sér fyrir sveitarfélögin að blandast inn í umræðu um tryggingagjaldsgreiðslur sveitarfélaga. Auðvitað hlýtur Samband íslenskra sveitarfélaga að blandast inn í þær umræður vegna þess að það á auðvitað að vera varnarbandalag, ef svo má að orði komast, gagnvart ríkisvaldinu í þessum efnum.

Ég hygg að við séum báðir mjög áfram um að sveitarfélögin hafi möguleika á að reka sig og að eitthvað sé eftir af fjárhagsáætlunum þeirra --- ég tala nú ekki um litlu sveitarfélögin --- ég sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður og hv. þm. sem núverandi sveitarstjórnarmaður, og búinn að starfa lengi á þessu sviði.

En því er ekki að neita, herra forseti, og um það held ég að við getum verið hjartanlega sammála og trúi ekki öðru, ég og hv. þm. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, að tryggingagjaldshækkunin, eins og hún er hér með þeirri endurbót og lækkun sem kemur í þessu frv., mismunar sveitarfélögunum mjög í landinu. Og við vitum að fyrir mörg litlu sveitarfélögin sem hafa tapað miklum tekjum vegna íbúafækkunar, samdráttar í atvinnu og annars er þetta stórkostleg --- ég ætla helst ekki að nota orðið ,,árás`` en þetta kemur mjög illa út fyrir þessi litlu sveitarfélög og gerir stöðu þeirra miklu erfiðari. Þetta gerir það að verkum að þessi sveitarfélög eiga erfitt með að inna skyldur sínar af hendi gagnvart borgurunum sem krafist er til móts við aðra.

Ég ætla, herra forseti, ekki núna, enda hef ég ekki tíma til þess, að ræða um áhrifin af breytingu yfir í einkahlutafélög á tekjustofna sveitarfélaga en þar er mikið um að vera.