Frumvörp til barnalaga

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:36:48 (525)

2002-10-15 13:36:48# 128. lþ. 10.96 fundur 175#B frumvörp til barnalaga# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að á dagskrá þingsins er til umræðu frv. til barnalaga. Það er stjfrv., 180. mál. Síðan verða umræður um tvö önnur frv. til breytinga á barnalögum sem ég er flutningsmaður að ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar.

Ég hef fallist á að frumvörp okkar fái að fara órædd til nefndar. Við getum þá rætt þær breytingar á barnalögunum sem lagðar eru til í þeim frv. við umræðuna um ríkisstjórnarfrv. Fyrra frv., sem er 31. mál, frá okkur í Samfylkingunni er breyting á lögunum sem gerir það að verkum að feður geta átt aðild að barnsfaðernismálum. Þetta er í þriðja skipti sem við leggjum þetta mál fram, en 18. desember árið 2000 kvað Hæstiréttur upp þann dóm að þetta væri ágalli á barnalögunum sem bryti í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar. Síðan höfum við flutt þetta mál ítrekað en nú er hæstv. dómsmrh. að taka þetta inn í breytingu sína á barnalögunum.

Hitt frv. skilar sér aftur á móti ekki inn í breytinguna á barnalögunum og ég óska eftir því að það verði skoðað í nefndinni þegar málið kemur þangað, en það er um að sameiginleg forsjá verði meginregla í íslenskum lögum. Forsjárnefnd sem dómsmrh. skipaði skilaði af sér áfangaskýrslu og komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað reynslu af sameiginlegri forsjá á Norðurlöndunum, en það er meginregla í Finnlandi og Svíþjóð, að það sé rétt að Íslendingar feti í fótspor þeirra. Við leggjum það sem sagt til í okkar frv., þingmenn Samfylkingarinnar, að sameiginleg forsjá barna verði meginregla í okkar lögum og erum við sammála þeirri meginröksemdafærslu forsjárnefndar að þannig sé best komið á réttindum barnsins samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.