Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 13:57:45 (531)

2002-10-15 13:57:45# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er mikill misskilningur, sem fram kom hjá einum hv. þm. hér, að þetta mál snúist um hversu stór fyrirtækin geti orðið. Þetta mál snýst fyrst og fremst um fólk og möguleika fólks til að komast af. Um það snýst þetta mál.

Það verður aldrei of oft sagt að þær byggðir sem urðu til fyrir nálægðina við auðlindina eiga allt sitt undir því að hafa aðgang að henni. Með þeirri samþjöppun sem átt hefur sér stað hefur tækifærum á þessum stöðum fækkað. Afleiðingarnar eru að eignir á þessum stöðum rýrna í verði. Það má því halda því fram fullum fetum að sú samþjöppun sem er að eiga sér stað sé greidd af því fólki sem býr þar sem tækifærin eru að renna því úr greipum, þ.e. verðmæti eigna fólksins, verðmæti húsnæðis á staðnum, er að minnka. Það er fólkið sem þarf að borga fyrir þessa samþjöppun. Um það snýst þetta mál, um fólkið í þessu landi.

Það er líka annað, virðulegi forseti, sem er nauðsynlegt að hafa í huga. Þetta snýst líka um dreifða eignaraðild. Þetta snýst um að heimildirnar fari ekki allar á fáar hendur. Í raun er þetta ekkert ósvipað umræðunni um bankana og fleira. Málið snýst öðrum þræði um að þessi auðlind komist ekki á hendur fárra, sem gerir það að verkum að fólkið á landsbyggðinni, sem á allt sitt undir tækifærum í sjávarþorpum sem urðu til vegna nálægðarinnar við auðlindina, missi ekki allt sitt. Þessi umræða snýst um fólk og möguleika þess til að komast af.