Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:04:13 (534)

2002-10-15 14:04:13# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:04]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Útgerðarfyrirtækin á Íslandi berjast um þjóðarauðlindina með samruna í stærri og stærri einingar. Ný fyrirtæki geta ekki orðið til í greininni af því að atvinnufrelsi ríkir ekki þar. Þeir sem vinna að því að viðhalda þessu fyrirkomulagi á Alþingi eru með því að ræna auðlind þjóðarinnar frá henni og reyna að koma henni endanlega í hendur einkaaðila, og þeir hafa verið iðnir við að liðka fyrir samrunaferlinu sem gengur með vaxandi hraða.

Árið 1998 átti stærsta útgerðin 4,1%. Nú á stærsta útgerðin 11,4%. Árið 1998 áttu fimm stærstu fyrirtækin 16,7%. Nú eiga tvö stærstu fyrirtækin meira en það, hátt í 20%. Þetta er bara frá 1998.

Hæstv. sjútvrh. fullyrti á dögunum að breytingar á kvótaþakinu hefðu engin áhrif haft á samrunaferli Eimskips og HB & Co. Því miður var þetta skrök hjá honum. Þeir sprengdu þakið í grálúðunni, þeir sprengdu þakið sem var í þorskinum fyrir ári og þeir sprengdu þakið sem var í karfanum umtalsvert og eru komnir hátt í fjórðung af karfanum, en reyndar má fara upp í 35% þar núna.

Mesta einkavæðing sögunnar stendur yfir á Íslandi og þetta er ekki venjuleg einkavæðing. Þetta er einkavæðing einokunar. Útgerðarmönnum er gefið leyfi til að selja og kaupa sín á milli einkarétt á því að stunda atvinnurekstur í útgerð. Þessi einkavæðing er heldur ekki kölluð einkavæðing enda er verið að einkavæða sameiginlega auðlind og þjóðin er á móti því. Atvinnufrelsið er afnumið og sjávarbyggðunum sem byggðu grundvöll sinn á því að nýta fiskimiðin blæðir út. Í lögunum sem gilda er talað um þjóðareign en í sömu lögum er aðgangurinn að miðunum gerður að einkaeinokunarrétti.