Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:06:28 (535)

2002-10-15 14:06:28# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:06]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er rétt að full ástæða til að fylgjast vel með þeirri þróun sem er að verða í íslenskum sjávarútvegi. Mönnum hefur verið þetta ljóst býsna lengi. Árið 1997 skilaði nefnd áliti sem lagði til að svokallað kvótaþak yrði sett á varðandi þessi mál og það varð að lögum í meginatriðum í mars 1998. Alþingi gerði þó breytingu á þeim tillögum sem þarna voru lagðar fram, gerði breytingu á því frv. sem hæstv. þáv. sjútvrh. lagði fram og þær breytingar voru í raun forsendan fyrir þeirri stóru sameiningu sem hér hefur verið gerð að umræðuefni, sameiningu HB og Eimskips.

Formaður sjútvn. þá og framsögumaður málsins var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og í þeirri nefnd sat einnig hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir. Þess vegna finnst mér ekki rétt eins og hún lagði málið upp áðan að það hafi verið sú lítils háttar breyting sem gerð var á einstökum tegundum á sl. vori sem hefði skapað forsenduna fyrir hinni stóru sameiningu. Það var auðvitað sú breyting sem Alþingi gerði sjálft á frv. hæstv. sjútvrh.

Ég held að ástæða sé til að vekja athygli á þessu máli vegna þess að menn hafa verið að láta í veðri vaka að grundvallarbreytingar hafi verið gerðar á þeim lögum sl. vor. Það var ekki gert eins og ég hef þegar bent á. Stóra málið er þó að Alþingi er um það sammála að kvótaþak þurfi að vera, tryggja þurfi ákveðna dreifingu á veiðiréttinum og er mjög mikilvægt að við verjum það áfram. Ég tel sjálfur að það hafi sýnt sig að þau lög hafi dugað vel. Margoft hefur komið fram að margir hafa viljað lyfta því þaki. Við í meiri hluta Alþingis höfum hins vegar ekki fallist á það og þess vegna höfum við varið kvótaþakið í öllum meginatriðum og þurfum að gera það áfram.