Samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:10:52 (537)

2002-10-15 14:10:52# 128. lþ. 10.94 fundur 174#B samþjöppun veiðiheimilda í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði að ég hefði skrökvað. Ég kannast ekki við það en hafi ég sagt eitthvað rangt hefur það verið vegna þess að ég hef ekki vitað betur. Ég gat hins vegar ekki numið það af því sem hann sagði í hverju það átti að hafa verið fólgið. En hitt held ég að jafnvel þótt það hafi skipt einhverju máli í einhverri tegundinni þá er það heildarþakið sem skiptir mestu og breytingarnar sem gerðar voru á síðasta þingi hefðu örugglega ekki komið í veg fyrir þá sameiningu sem er rótin að þessari umræðu.

Margir hv. þm. hafa nefnt byggðaáhrifin. Það er sjálfsagt rétt að sameining fyrirtækja hefur haft einhver áhrif á byggðirnar ásamt fjölda mörgum öðrum þáttum. Eins og kom fram í viðtali við forstjóra HB, Harald Sturlaugsson, mjög farsælan forstjóra, voru fyrirtækin sem HB er orðið til úr með 600 starfsmenn fyrir nokkrum árum en eru nú með 260. Ég held að þetta lýsi kannski hagræðingunni og sjálfsagt má segja sömu sögu um fjölda þeirra skipa sem fyrirtækið gerir út nú og áður.

En það er rétt að þetta er þróunin og einnig er rétt að Alþingi hefur brugðist við þróuninni af því að Alþingi sá þetta fyrir. En það er kannski í öðrum hluta sjávarútvegskerfisins sem við höfum ekki séð þróunina fyrir því að mér skilst að í smábátaútgerðinni sé svipað að gerast og þar höfum við ekki gert neinar ráðstafanir. Og meira að segja í sóknardagakerfinu, sem á að vera og ég held að við hugsum öll um það sem einyrkjakerfi sem gerir einstaklingunum kleift að gera út frá litlum byggðarlögum, er um að ræða samþjöppun og fjöldi sóknardagabáta er kominn á hendur eins aðila. Það er kannski þarna, herra forseti, sem við þyrftum eitthvað að hugsa okkur um.