Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:13:47 (538)

2002-10-15 14:13:47# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Frumvarp það til nýra barnalaga sem hér er mælt fyrir var samið af sifjalaganefnd. Í henni áttu sæti Páll Hreinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmrn., og Valborg Þ. Snævarr hæstaréttarlögmaður.

Í dómsmrn. var síðan gerð breyting á 1. mgr. 42. gr. frv. og athugasemdum um hana samkvæmt ábendingu réttarfarsnefndar, sem ég mun víkja að hér á eftir, og er frv. sem ég mæli fyrir nú í öllum meginatriðum það frv. sem sifjalaganefnd samdi.

Með gildandi barnalögum nr. 20 frá 1992 voru á sínum tíma gerðar verulegar breytingar á íslenskum barnarétti og margvísleg nýmæli tekin upp. Á þeim áratug sem liðinn er frá gildistöku laganna hafa orðið miklar breytingar á viðhorfum og sjónarmiðum í barnarétti, bæði hér á landi og erlendis, og var því tímabært að endurskoða þau í ljósi fenginnar reynslu og þróunar.

Strax við upphaf endurskoðunar laganna á árinu 1999 var ljóst að taka þyrfti afstöðu til fjölmargra sjónarmiða og álitaefna og ákvað sifjalaganefnd því að gefa ýmsum þeim stofnunum, félaga- og hagsmunasamtökum sem láta sig málefni á sviði barnaréttar varða tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri við nefndina. Þeir sem nefndin ritaði bréf í þessu skyni voru Barnaheill, Barnaverndarráð, Barnaverndarstofa, Dómarafélag Íslands, Félag ábyrgra feðra, Félag einstæðra foreldra, Fjölskylduráð, Heimili og skóli, Íslandsdeild OMEP (Bernskan), Jafnréttisráð, karlanefnd Jafnréttisráðs, Kvenréttindafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, Samtökin 78, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, Sýslumannafélag Íslands og umboðsmaður barna. Ellefu þeirra létu sifjalaganefnd í té ábendingar og tillögur og einnig bárust ábendingar frá Tryggingastofnun ríkisins. Um sumt voru flestir umsagnaraðilar sammála en um annað voru sjónarmið þeirra ósamræmanleg. Sifjalaganefnd tók allar athugasemdir og ábendingar sem henni bárust til efnislegrar athugunar og var við samningu frv. tekið tillit til fjölmargra þeirra.

[14:15]

Við samningu frv. hafði sifjalaganefnd sérstaka hliðsjón af þeim alþjóðlegu samningum og samþykktum sem Ísland er aðili að og varða málefni á sviði barnaréttar. Var þá sérstaklega litið til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og mannréttindasáttmála Evrópu en einnig til norræns samstarfs á sviði sifjaréttar.

Þegar ljóst var að samið yrði frv. til nýrra heildarlaga en ekki frv. til breytinga á gildandi barnalögum ákvað nefndin að stokka kaflaskipan frv. upp miðað við gildandi barnalög. Tilgangurinn var að gera það eins skýrt og aðgengilegt og unnt væri, ekki síst til þess að auðvelda ólöglærðum að glöggva sig á efni þess en eins og kunnugt er eru barnalög mikið lesin af almenningi, sérstaklega af foreldrum og öðrum aðstandendum barna.

Þegar sifjalaganefnd hafði lokið við drög að frv. til barnalaga, í árslok 2001, voru þau send fyrrnefndum umsagnaraðilum og fleirum til kynningar og þeim gefinn kostur á að veita nefndinni umsögn sína um þau. Athugasemdir bárust frá allmörgum aðilum. Flestir þessara umsagnaraðila lýstu mikilli ánægju með frumvarpsdrögin en þó komu fram ýmsar ábendingar og athugasemdir. Sem fyrr var tekið tillit til þeirra við samningu frv.

Þegar umsagnir þessara aðila lágu fyrir taldi sifjalaganefnd rétt, að gefnu tilefni, að kalla sérstaklega eftir áliti sérfróðra manna á því hvernig best væri að skipa réttarstöðu barns í forsjármáli, einkum hvort talist gæti forsvaranlegt að veita barni stöðu aðila í slíku máli. Leitað var til þriggja sálfræðinga í þessu skyni sem allir hafa mikla reynslu af forsjármálum, bæði sem álitsgjafar og meðdómendur, þeirra Aðalsteins Sigfússonar, Guðfinnu Eydal og Þorgeirs Magnússonar. Þau skiluðu nefndinni skýrslu sinni um efnið og fylgir hún frv. sem fylgiskjal II. Niðurstaða sálfræðinganna var mjög í samræmi við skoðanir og álit sifjalaganefndar og mun ég víkja nánar að efni skýrslunnar þegar ég kem að umfjöllun um VI. kafla frv.

Eftir að frv. hafði verið afgreitt úr ríkisstjórn og sent þingflokkunum barst mér minnisblað úr félmrn. með umsögn um frv. Á fundi með lögfræðingum á vegum félmrn. og lögfræðingum í dómsmrn. var farið rækilega yfir efni þessa minnisblaðs og náðist þá samkomulag um flest þau atriði sem þar greindi. Ef eitthvað þarfnast frekari skoðunar treysti ég því að það verði gert í hv. allshn. í samvinnu við bæði ráðuneytin og sifjalaganefnd.

Ég mun nú víkja að einstökum köflum frv. en bendi jafnframt á að í athugasemdum við frv. í II. kafla eru helstu nýmæli þess reifuð í 22 liðum og að auki er í athugasemdum með einstökum greinum að finna ítarlegar skýringar sem ég vísa hér til.

Í I. kafla eru ákvæði um móðerni og faðerni barns. 1. gr. frv. er nýmæli en þar segir að barn eigi rétt á að þekkja báða foreldra sína og af þeim rétti barnsins er dregin skylda móður til að feðra barn sitt sem ekki er feðrað samkvæmt beinum fyrirmælum barnalaga. Ákvæðið er leitt af 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Um móðerni barns sem getið er við tæknifrjóvgun segir í 5. gr. að kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun teljist móðir þess. Þetta ákvæði er einnig nýmæli og er fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir hugsanlegan ágreining um móðerni barns þegar notast er við gjafaeggfrumur. Um faðerni barns greinir síðan í 2., 3., 4., 6. og 7. gr. frv.

Í II. kafla er fjallað um dómsmál til feðrunar barns og kemur hann í stað VII. kafla barnalaga. Verulegar breytingar eru lagðar til á II. kafla frá gildandi lögum. Ákvæðum er raðað á annan hátt innan kaflans, orðalagi er breytt, ákvæði eru felld brott og ný tekin upp. Leitast hefur verið við að færa ákvæði frv. til samræmis við almennar reglur einkamálalaga eins og kostur er en vegna eðlis þessara mála eru frávik frá einkamálaréttarfari þó nokkur. Kaflinn hefur verið einfaldaður og í honum er nú aðeins að finna réttarfarsreglur sem fela í sér frávik frá almennum reglum laga um meðferð einkamála.

Í 10. gr. um málsaðild er að finna mikilvægasta nýmæli kaflans. Lagt er til að manni, sem telur sig föður barns, verði í barnalögum veitt heimild til höfðunar faðernismáls. Á undanförnum árum hafa verulegar breytingar orðið á viðhorfum í barnarétti eins og vikið hefur verið að. Kastljósinu hefur m.a. í auknum mæli verið beint að rétti barns til að þekkja báða foreldra sína og rétti þess til að njóta samvista við þá. Viðurkenning á rétti manns sem telur sig föður barns til að höfða faðernismál er fallin til að styrkja þessi réttindi barns. Í ljósi þessara breyttu viðhorfa, sem m.a. endurspeglast í dómi Hæstaréttar í máli nr. 419/2000, eru fyrrgreindar breytingar á málsaðild lagðar til. Í sambandi við málshöfðunarheimild manns sem telur sig föður barns er rétt að minna á hve fátítt það er að börn hér á landi séu ófeðruð en samkvæmt upplýsingum þjóðskrár munu það vera um átta börn á ári. Þess vegna má ætla að faðernismál þar sem karlmaður er stefnandi máls verði ekki mörg.

Í 13. gr. um málsvara í faðernismálum er nýmæli. Lagt er til að dómari geti, ef sérstaklega stendur á, skipað stefnda málsvara ef ekki er mætt af hans hálfu við þingfestingu máls eða ef þingsókn fellur niður af hans hálfu á síðari stigum. Málsvari talar máli hins stefnda og gætir hagsmuna hans en hefur ekki heimild til að skuldbinda hann fyrir dómi.

Í III. kafla er fjallað um dómsmál til vefengingar á faðerni barns og til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Þótt ýmislegt sé sammerkt með II. og III. kafla horfa mál ólíkt við samkvæmt þeim. Í II. kafla er fjallað um mál til feðrunar barns sem þá er ófeðrað en ákvæði III. kafla lúta að börnum sem þegar eru feðruð en freistað er að hnekkja faðerninu.

Líkt og II. kafli er III. kafli í margvíslegu tilliti frábrugðinn ákvæðum gildandi barnalaga. Eiga breytingarnar m.a. rætur að rekja til nýrrar þekkingar og tækni í læknavísindum sem gerir mönnum kleift að staðreyna faðerni barns með afdráttarlausum hætti.

Í gildandi lögum er að finna reglur um tímafresti sem lagt er til að verði alfarið felldar niður. Í lögunum segir nú að vefengingarmál, eða mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu, eigi að höfða innan árs frá því að sóknaraðili fær vitneskju um atvik sem orðið geta efni til að vefengja faðerni barns. Slíkt mál verði þó ekki höfðað eftir fimm ára aldur barns en dómsmrn. geti veitt málshöfðunarheimild ef sérstaklega stendur á. Fyrrnefndir tímafrestir gilda þó aldrei ef barn er stefnandi máls. Vandséð er hvað geti réttlætt þessa tímafresti nú á dögum, ekki síst í ljósi ákvæða 70. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir dómstóli og þess hversu óyggjandi niðurstöður fást í nútímarannsóknum á faðerni barns.

Helstu efnisatriði V. kafla frv. eru reglur um inntak forsjár, forsjármenn, samninga foreldra um forsjá, dóma um forsjá o.fl. Í kaflanum eru lagðar til veigamiklar efnisbreytingar frá gildandi barnalögum auk þess sem uppbygging kaflans er með öðru sniði en uppbygging laganna.

28. gr. frv. um inntak forsjár er hliðstæð 29. gr. barnalaga en þetta mikilvæga ákvæði er þó ítarlegra en gildandi lög.

2. mgr. er nýmæli. Lagt er til, samkvæmt ábendingu umboðsmanns barna, að tekið verði upp ákvæði er leggur skyldu á forsjármann til að vernda barn gegn líkamlegu og andlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.

Í 29. gr. er fjallað um hverjir eru forsjármenn barns. 3. mgr. er töluvert frábrugðin 3. mgr. 30. gr. gildandi barnalaga. Í fyrsta lagi gerir frv. ráð fyrir því að stjúpforeldri og sambúðarforeldri fái ekki forsjá barns maka síns eða sambúðarmaka er það gengur í hinn nýja hjúskap eða hefur verið í skráðri sambúð í eitt ár nema foreldri barnsins fari áður eitt með forsjá þess. Þetta þýðir að forsjárskipan barns breytist ekki ef kynforeldrar þess, sem fara sameiginlega með forsjá þess samkvæmt samningi, ganga í hjúskap eða taka upp sambúð með öðrum, eins og nú er, heldur fara foreldrarnir einir áfram sameiginlega með forsjána. Samkvæmt barnalögum geta forsjármenn barns orðið fjórir, þegar svo háttar til, en fullyrða má að engin rök mæli með því að forsjármenn verði svo margir.

Þá er þess að geta að ekki er gert ráð fyrir því í 3. mgr. að sambúðarmaki fái forsjá barns nema skráð sambúð hans og foreldris barnsins hafi staðið samfleytt í a.m.k. eitt ár. Hér er sett það skilyrði að sambúðin hafi verið tilkynnt þjóðskrá.

Í 6. mgr. er að finna nýmæli. Lagt er til að forsjárforeldrar geti ákveðið hver eða hverjir skuli að þeim látnum fara með forsjá barns þeirra. Ber að fara eftir slíkri ákvörðun foreldra nema því aðeins að annað þyki barni fyrir bestu eða ákvörðunin sé andstæð lögum. Nokkuð er nú um að slíkar yfirlýsingar séu gefnar þótt þær skorti lagastoð en það er gert í þeim tilgangi að upplýsa um mat forsjárforeldra á því hvernig hagsmunum barns væri best borgið að þeim látnum, í þeirri von að farið yrði að vilja þeirra. Ákvæðið sem hér er lagt til á sér hliðstæðu í lögræðislögum en í þeim er eðlilega aðeins fjallað um þann þátt lögráða sem felst í fjárhaldi barns.

Í 7. mgr. er mælt fyrir um form ákvörðunar skv. 6. mgr. og er gert ráð fyrir að yfirlýsing foreldra beri með sér að þeir geri sér grein fyrir réttaráhrifum hennar.

33. gr. frv. fjallar um sáttaumleitan í forsjár-, umgengnis- og dagsektarmálum. Hún kemur í stað 37. gr. A gildandi barnalaga sem bætt var við lögin með lögum nr. 18/2001. Efnislega tekur greinin mið af 37. gr. A en horfið er þó frá því að skylda sýslumann til að bjóða barni sem náð hefur 12 ára aldri ráðgjöf. Þess í stað er lagt til að sá sem ráðgjöfina veitir geti rætt við barn sem mál varðar telji hann það þjóna hagsmunum þess og forsjárforeldrar samþykkja. Það fer því eftir eðli deilunnar og atvikum máls að öðru leyti hvort rætt er við barn af hálfu ráðgjafans meðan málið er til meðferðar hjá honum. Ekki þykir rétt að leggja til ákveðin aldursmörk í ákvæðinu heldur fer best á að mat fari fram á því í hverju máli fyrir sig hvort ástæða er til að ræða við barn.

Þótt sýslumanni sé skylt að bjóða foreldrum sérfræðiráðgjöf er þeim ekki skylt að þiggja hana. Markmið ráðgjafarinnar er að hjálpa foreldrunum að finna lausn á ágreiningi sínum og eðli máls samkvæmt verða foreldrar ekki þvingaðir til sátta. Jafnljóst má vera að foreldrar sem þiggja ráðgjöf og reyna að ná sáttum verða að vera sáttir við að rætt sé við barnið um málið. Þess vegna er eðlilegt að breyta orðalagi ákvæðisins svo það þjóni betur tilgangi sínum.

Í 34. gr. frv. er kveðið á um ágreiningsmál um forsjá og fleira og svarar hún til 34. gr. gildandi barnalaga en verulegar breytingar eru þó lagðar til frá gildandi rétti. Í 1. mgr. er fjallað um úrlausnarvald í ágreiningsmálum um forsjá. Gert er ráð fyrir að dómstólum einum verði falið að leysa úr slíkum málum en þau fari ekki til úrlausnar dómsmrn.

Við setningu gildandi barnalaga var um það rætt í sifjalaganefnd hvort rétt væri að leggja til að færa úrskurðarvald í forsjármálum alfarið til dómstóla en frá því var horfið. Í barnalögunum er í dag kveðið á um tvíþætt úrlausnarkerfi forsjármála, þ.e. að auk dómstóla leysi dómsmrn. úr forsjármálum en þó aðeins ef aðilar eru á einu máli um að fela ráðuneytinu úrlausnarvald. Í reynd er það svo að þeim málum sem dómsmrn. sker úr árlega hefur fækkað nokkuð eins og nánar er reifað í almennum athugasemdum um V. kafla frv.

[14:30]

3. mgr. er nýmæli. Lagt er til að lögfest verði að við forsjárákvörðun beri að líta sérstaklega til þess hvort foreldri, sem krefst forsjár barns, hefur verið tálmuð umgengni við það. Fram til þessa hefur vissulega verið talið rétt að líta til þess við ákvörðun forsjár hvernig foreldrar sjá fyrir sér umgengni barnsins og þess foreldris sem ekki fær forsjá þess og getur þetta atriði verið mikilvægur þáttur í forsjármáli. Með lögfestingu ákvæðis 3. mgr. er kastljósinu beint sérstaklega að því hvort umgengni foreldris og barns hafi verið tálmuð. Dómara ber í úrlausn sinni að taka afstöðu til þess hvort svo hafi verið og þá jafnframt að taka tillit til þess við ákvörðun máls.

Í 4. mgr. er einnig að finna nýmæli. Lagt er til að dómara verði fengið vald til að ákveða inntak umgengnisréttar foreldris og barns í dómi um forsjá, svo og meðlag með barni, takist ekki sættir milli foreldranna.

Úrlausn umgengnis- og meðlagsmála er nú einvörðungu í höndum stjórnvalda. Foreldrar þurfa því að leita til sýslumanns varðandi þá þætti í kjölfar dóms um forsjá, ef því er að skipta, og þarf sýslumaður þá að kynna sér hagi foreldra og barns frá grunni. Verði frumvarp þetta að lögum verður dómurum falið að leysa úr ágreiningi af þessum toga í tengslum við forsjármál sem til meðferðar er. Þykir þetta horfa mjög til hagræðis fyrir aðila máls og þjóna hagsmunum barns best. Ekki verður séð að breyting þessi auki álag á dómstóla, svo nokkru nemi, þar sem ekki er lagt til að þessir málaflokkar verði færðir í heild sinni til dómstólanna, heldur aðeins að dómurum verði fært úrlausnarvald um þetta í forsjármáli, sem er þegar komið til þeirra kasta. Ætla verður á hinn bóginn að álagi létti nokkuð af sýslumannsembættum. Þá verður og að ætla að kostnaður aðila og ríkisvalds, umfram kostnað vegna forsjármálsins sem slíks, sé óverulegur.

Ég legg áherslu á að með þessari breytingu er ekki verið að flytja úrlausn í umgengnis- og meðlagsmálum almennt frá stjórnvöldum til dómstólanna. Þvert á móti verða þau áfram til úrlausnar hjá sýslumönnum með kæruheimild til dómsmrn. Eina undantekningin er að opnað er fyrir möguleika foreldra til að fá úrlausn um þessi efni í einu og sama málinu. Ef ágreiningur rís síðar um umgengni eða meðlag með barni ber því að reka málið fyrir stjórnvöldum.

Í VI. kafla frumvarpsins eru reglur um meðferð forsjármála fyrir dómi og svarar hann til VIII. kafla gildandi barnalaga.

Vegna séreðlis forsjármála verður ekki hjá því komist að þau sæti afbrigðilegri meðferð einkamála og stefna ákvæði frumvarpsins þá átt. Við endurskoðun laganna hefur þó verið leitast við að færa málsmeðferðarreglur til samræmis við almennar reglur einkamála eftir því sem þótt hefur fært. Frávikin frá hinum almennum reglum eru þrátt fyrir það enn nokkur og er þau að finna í VI. kafla frumvarpsins.

Ég tek undir með sifjalaganefnd að mikilvægt sé að hlífa börnum við óþarfa sársauka og erfiðleikum vegna forsjárdeilu foreldra þeirra eftir því sem kostur er og því sé ekki rétt að blanda börnum í deilur foreldranna sjálfvirkt. Meðal þeirra tillagna sem nefndinni bárust við samningu frumvarpsins var að barni yrði tryggð sjálfstæð aðild að forsjármáli og ábending um að barni yrði skipaður réttargæslumaður við meðferð forsjár- og umgengnismáls. Starfshópur sem ég vék að í upphafi veitti sifjalaganefnd að beiðni hennar álit sitt á því m.a. hvort æskilegt væri að barn fengi sjálfstæða aðild að dómsmáli um forsjá þess og á því hvort rétt væri að mæla fyrir um að barni yrði skipaður réttargæslumaður við meðferð máls. Var það álit sérfræðinganna að óæskilegt væri að barn væri aðili máls. Með því yrði barnið beinn þátttakandi í deilu foreldranna og hætt væri við að hin virka þátttaka barnsins í ferli málsins hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir samskipti foreldra og barns eftir að máli lyki. Sálfræðingarnir töldu að verja bæri börn fyrir slíku álagi og að ekki væri þörf á að færa í lög að barni yrði skipaður réttargæslumaður. Þar sem vandi barns í þessum málum væri oftast fyrst og fremst tilfinningalegur og tengdur flóknum samskiptum þess við sína nánustu var það mat sálfræðinganna að talsmaður, sem væri fagmaður á sviði sálfræði, barnageðlækninga eða félagsráðgjafar, væri vænlegri til að gæta hagsmuna barns. Það varð því niðurstaða nefndarinnar að hvorki yrði í frumvarpi þessu lagt til að barn yrði aðili máls né að barni skuli skipa réttargæslumann við meðferð forsjár- og umgengnismála.

41. gr. mælir fyrir um málsástæður og leysir hún af hólmi 62. gr. gildandi barnalaga. Í þessu ákvæði og því næsta endurspeglast e.t.v. best sú sérstaða sem einkennir forsjármál. Í 1. mgr. kemur fram að aðilar geta borið fyrir sig nýjar málsástæður og haft uppi ný andmæli allt til þess er mál er dómtekið. Á hinn bóginn er ekki talið rétt að ganga eins langt og gildandi barnalög sem heimila að settar séu fram nýjar kröfur allt þar til mál er flutt. Í athugasemdum með 41. gr. er að finna ítarlegan rökstuðning fyrir þessari breytingu.

Í 42. gr. er fjallað um gagnaöflun og leysir hún af hólmi 60. gr. gildandi barnalaga. Í frv. því er sifjalaganefnd lét mér í té hljóðaði 1. málsl. 1. mgr. á þann veg að dómari stýrði gagnaöflun. Eftir ábendingu réttarfarsnefndar var gerð breyting á ákvæðinu og athugasemdum við það eins og ég gat um í upphafi. 1. málsl. 1. mgr. er nú óbreytt 1. mgr. 60. gr. barnalaga. Í 2. og 3. málsl. 1. mgr. segir að aðilum máls sé skylt að verða við kvaðningu dómara um að mæta fyrir dóm og gefa skýrslu og að knýja megi þá til þess í samræmi við 1. mgr. 55. gr. laga um meðferð einkamála. Af því leiðir að dómari getur, að kröfu aðila, leitað aðstoðar lögreglu við að færa viðkomandi fyrir dóm.

Í 2. mgr. kemur fram að dómari getur lagt fyrir aðila að afla tilgreindra gagna sem varða aðstæður aðila eða barns og svarar málsgreinin að nokkru til 2. mgr. 60. gr. gildandi barnalaga. Verði aðili ekki við tilmælum dómara um gagnaöflun eða honum er ókleift að afla þeirra getur dómari sjálfur aflað gagna sem hann telur nauðsynleg til að leggja megi dóm á mál.

Í 3. mgr. er að finna sérstaka reglu vegna séreðlis forsjármála. Sérfræðileg álitsgerð er í mörgum forsjármálum aðalsönnunargagnið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að dómari geti lagt fyrir aðila að afla sérfræðilegrar álitsgerðar telji hann hennar þörf. Í þessu felst að aðili máls útbýr beiðni um dómkvaðningu matsmanns og tiltekur hvaða atriði hann vill að verði könnuð í samræmi við almennar reglur laga um meðferð einkamála. Dómari yfirfer beiðnina og getur sjálfur bætt matsatriðum við dómkvaðninguna. Dómari getur enn fremur í matsbeiðninni falið sérfræðingnum að ræða við barn í því skyni að kanna viðhorf þess.

Í 43. gr. er fjallað um rétt barns til að tjá sig um mál o.fl.

4. mgr. er ætlað að leysa af hólmi 5. mgr. 34. gr. gildandi barnalaga um heimild til skipunar talsmanns barns í forsjármáli en nokkurs misskilnings hefur gætt varðandi tilgang og þýðingu þessa ákvæðis barnalaga eins og rækilega er raunar reifað í athugasemdum með ákvæðinu. Þar sem samkomulag náðist á þeim fundi sem ég gat um í upphafi með lögfræðingum á vegum félmrn. og í dómsmrn. um að æskilegt sé að ákvæðunum verði breytt með hliðsjón af barnaverndarlögum mun ég mælast til þess við hv. allshn. að tillögur þar að lútandi verði vandlega skoðaðar.

Í VIII. kafla er að finna reglur um umgengnisrétt, samninga og úrskurði um umgengni og þvingunarúrræði til framdráttar umgengnisrétti.

Verulegar breytingar eru lagðar til á gildandi rétti í þessum kafla og er helsta breytingin sú að lagt er til að heimilað verði að umgengni verði komið á með aðfarargerð, skili dagsektarúrskurður og innheimtuaðgerðir dagsekta ekki viðunandi árangri. Samkvæmt gildandi barnalögum eru einu þvingunarúrræðin til framdráttar umgengnisrétti beiting dagsekta, að kröfu þess sem ekki fær notið umgengni samkvæmt úrskurði.

Margir þeirra sem komu á framfæri athugasemdum við sifjalaganefnd í tilefni af fyrirhugaðri endurskoðun barnalaga viku að reglum laganna um umgengni og úrræðum gegn brotum á umgengnisrétti. M.a. komu þau sjónarmið fram að þvingunarúrræði barnalaga væru gagnslítil er forsjárforeldri tálmaði umgengni og að brýnt væri að breytingar yrðu gerðar þar á.

Taka verður undir að brýnt sé að breyta ákvæðum gildandi barnalaga um þvingunarúrræði til framdráttar umgengnisrétti bæði vegna þess hversu skammt þau úrræði ná og þess að nú ríkir ákveðið ósamræmi varðandi þvingunarúrræði vegna innlendra umgengnisúrskurða annars vegar og erlendra ákvarðana hins vegar. Það ósamræmi kemur til af því að frá 1. nóvember 1996 hafa íslensk stjórnvöld verið skuldbundin til þess að fullnusta umgengnisákvörðun frá öðrum ríkjum Evrópu með aðfarargerð á grundvelli laga nr. 160/1995, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Sömu reglur eigi að gilda um úrræði til framdráttar umgengnisrétti óháð því hvar umgengnisákvörðun er tekin. Lögfesting þessa ákvæðis hefur í för með sér að hægt verður að undangengnum úrskurði dómara að sækja barn, t.d. á heimili þess, í því skyni að koma umgengni á og fellur hér undir úrskurðuð og dæmd umgengni en einnig umgengni sem ákveðin hefur verið með samningi foreldra, sem staðfestur er af sýslumanni.

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á að með lögfestingu þessara tillagna verður íslensk löggjöf í betra samræmi við löggjöf annarra norrænna ríkja, samanber nánar um erlendan rétt í fylgiskjali I með frumvarpi þessu.

Í 46. gr. eru almenn ákvæði um umgengnisrétt. Í 1. mgr. kemur sú grunnregla fram að barn eigi rétt á að umgangast það foreldri sem það býr ekki hjá með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.

Við ákvörðun um umgengni hjá stjórnvöldum hér á landi hafa mótast skýrar verklagsreglur við meðferð mála og ákveðin grundvallarsjónarmið eru höfð að leiðarljósi við úrlausn þeirra. Er þessum verklagsreglum ítarlega lýst í athugasemdum með 46. gr. frv.

Í 2. mgr. er kveðið á um rétt og skyldu foreldris sem barn býr ekki hjá til að rækja umgengni og samneyti við barn og eru þar ekki lagðar til efnisbreytingar frá gildandi lögum. Í 2. málsl. 2. mgr. er lagt til að lögfest verði sú óskráða meginregla, sem gilt hefur, að foreldri sem nýtur umgengnisréttar greiði kostnað vegna umgengninnar, nema annað sé ákveðið með samningi eða úrskurði.

Í IX. kafla eru ákvæði um framfærslu barns. Ekki eru lagðar til verulegar efnislegar breytingar frá VI. kafla gildandi barnalaga, nokkrar þó, en röðun ákvæða innan hans er breytt. Þeim breytingum er einkum ætlað að gera kaflann samfelldari og aðgengilegri.

Eitt af nýtmælum þessa kafla er að gert er ráð fyrir að unnt verði að úrskurða um meðlag þótt forsjá barns sé sameiginleg samkvæmt samningi og byggist sú tillaga á svipuðum sjónarmiðum og heimildin til að úrskurða um umgengni við þessar aðstæður. Þetta á þó einungis við ef foreldri fullnægir ekki framfærsluskyldu sinni gagnvart barni og heimildin er bundin við úrskurð á hendur því foreldri sem barn á ekki lögheimili hjá.

XI. kafli frumvarpsins, sem hefur að geyma reglur um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt frumvarpinu, er allnokkuð breyttur frá gildandi lögum. Breytingarnar koma aðallega til af því að nú er litið sérstaklega til ákvæða stjórnsýslulaga, sem sett voru eftir gildistöku barnalaga, nr. 20/1992, en einnig er í kaflanum að finna nokkrar málsmeðferðarreglur sem fram til þessa hefur verið kveðið á um í öðrum köflum barnalaga og í reglugerð nr. 231/1992, um stjórnsýslumeðferð mála samkvæmt barnalögum.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nokkrum frávikum frá stjórnsýslulögum. Að sumu leyti eru gerðar ríkari kröfur til stjórnvalda en samkvæmt stjórnsýslulögunum, t.d. skulu úrskurðir sýslumanns ávallt vera rökstuddir. Í öðrum tilvikum er um annars konar sérákvæði að ræða, samanber t.d. tveggja mánaða kærufrest í stað hins almenna þriggja mánaða frests stjórnsýslulaga o.fl.

Í 70. gr. er m.a. fjallað um tilkynningu um meðferð máls. Þar er að finna nýmæli í 4. mgr. þar sem mælt er fyrir um að sýslumaður geti í vissum tilvikum birt tilkynningu um meferð máls í Lögbirtingablaði og er um þýðingarmikið nýmæli að ræða. Þeim málum fjölgar sífellt hjá stjórnvöldum þar sem örðugleikum er bundið að ná til gagnaðila máls og er brýn þörf fyrir skýr lagafyrirmæli um hvernig skuli brugðist við þegar svo háttar til, en fram til þessa hefur slík fyrirmæli ekki verið að finna í lögum. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Þetta er mjög viðamikið frv. sem ég mæli hér fyrir. Ég vil að lokum segja að í XII. og síðasta kafla frv. eru ýmis ákvæði um heimild til setningar reglugerða, gildistöku, lagaskil o.fl.

Ég hef þá lokið framsögu um þetta ítarlega og mikilvæga frv. til nýrra barnalaga og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.