Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:46:49 (540)

2002-10-15 14:46:49# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þetta sé e.t.v. ákveðinn misskilningur. Vissulega getur frv. virst nokkuð tæknilegt og ýmis lögfræðileg atriði sem eru rakin í framsögu minni, en það er að sjálfsögðu svo að sömu reglur gilda fyrir þá aðila sem fara með forræði barns. Af því að hv. þm. nefndi sérstaklega ættleiðingar þá eru sérstök lög sem gilda um framkvæmd ættleiðinga. Þegar foreldri fer með forsjá barns hefur það sömu réttindi og sömu skyldur og aðrir foreldrar.

Mér heyrist hv. þm. vera að gefa í skyn að hætta sé á því að menn muni nýta sér í miklum mæli þá heimild í frv. um að fara í faðernismál. Ég tel að svo verði ekki, ekki sé hætta á því. Ég tel hins vegar að þetta sé mikið réttlætismál og líka jafnréttismál. Dómur Hæstaréttar var mjög skýr í þessu máli. Hann taldi það beinlínis andstætt stjórnarskrá að feður gætu ekki átt þennan rétt ef þeir teldu sig vera feður barna, og að þeir gætu sótt þann rétt sinn.

En það sem er auðvitað grundvallaratriðið í frv. og snertir umrædda heimild er réttur barnsins til að þekkja og umgangast báða foreldra sína og sá réttur er leiddur af barnasamningi Sameinuðu þjóðanna. Það er grundvallaratriðið og rauði þráðurinn í frv. og þess vegna kemur heimildin til.