Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:50:10 (542)

2002-10-15 14:50:10# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nokkuð undrandi á þessum hörðu viðbrögðum hjá hv. þm. Hér er verið að mæla fyrir mjög stóru frv. og ef hann hefur lagt það á sig að lesa allar athugasemdir við greinarnar og greinargerðina þá sér hann að þar liggur mikil vinna á bak við og mjög margt sem tekið er á.

En hins vegar, og það er atriði sem hv. þm. verður að átta sig á að ekki er hægt að setja lög yfir allar tilfinningar og samskipti manna á meðal, það er nú bara þannig, hv. þm. En það sem snýr að stjórnvöldum, þá verður það að vera alveg ljóst hvaða reglur gilda varðandi forræðismál og annað.

Einnig var minnst á 1. gr. frv. varðandi feðrun barns. Eins og ég sagði áðan er það líka byggt á rétti barnsins til að þekkja báða foreldra sína. Ég vildi láta þetta koma fram hér, herra forseti.

Að öðru leyti er þetta stórt frv. sem á eftir að fá vonandi mjög vandaða vinnu í hv. allshn. og margir hlutir þar væntanlega skoðaðir og ræddir. Ég vona svo sannarlega að málið fái góðar viðtökur á hinu háa Alþingi af því að ég tel að það sé mjög mikilvægt og feli í sér mjög mikilvægar réttarbætur, ekki síst fyrir börn landsins.