Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:55:45 (545)

2002-10-15 14:55:45# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Við erum sammála um það, ég og hæstv. dómsmrh., að hér er vissulega mál til að taka á, því að eins og málin standa í dag geta liðið tvö ár frá skilnaði og þar til dagsektarákvæðum er beitt og kona getur ráðið því hvort börnin tala við félagsráðgjafa eða sálfræðing og um leið jafnvel notað stöðu sína og sagt ósatt í slíku máli án þess að faðir fái rönd við reist.

Ég vænti þess að lögin verði gerð aðlæg að nútímanum þannig að við skilnað sé ekki það ástand ríkjandi að faðir sé nánast utanveltu og haldið utan við, kannski í hefndarskyni vegna skilnaðarins eða af öðrum sérkennilegum hvötum móður, að hleypa föður ekki nálægt barni sínu. Það er óviðunandi og í því sambandi, eins og ég nefndi um þessi dagsektarákvæði, þá er eðlilegt að þau komi miklu fyrr til framkvæmda ef annar hvor aðilinn --- nú getur þetta auðvitað verið á hinn veginn líka --- framfylgir ekki umgengnisréttarákvæðunum. Sé þeim ekki framfylgt á skilyrðislaust að beita ákvæðum miklu fyrr en gerst hefur á umliðnum árum, að jafnvel líði á þriðja ár.

Ég fagna frv., herra forseti, og vænti þess að allshn. og þingið taki á málinu og beri gæfu til þess að gera lögin aðlæg að nútímanum þannig að slíkt ástand vari ekki eins og verið hefur, því miður, um of langan tíma.