Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 14:57:36 (546)

2002-10-15 14:57:36# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir framsögu í því mikilvæga máli sem hér er um að ræða.

Ég ætla nú að fara tiltölulega lauslega yfir frv. Í því eru mjög mörg góð nýmæli sem verður verulega spennandi að skoða í allshn. En mig langar fyrst aðeins að stinga mér inn í umræðuna sem var hérna áðan út af andsvörum við ræðu hæstv. dómsmrh. og benda þingmönnum á að sennilega er stærsta vandamálið það að karlmenn ræki ekki umgengni við börnin sín, því miður. Hin málin verða auðvitað sýnilegri og þeir geta haft hátt sem lenda í vandamálum. Við þurfum því að tryggja alla ráðgjöf í þeim málum. En við skulum ekki gleyma þeim börnum þar sem feður hunsa algjörlega umgengni við börnin sín, svo við höldum okkur við báðar hliðar máls.

Hér er því um mjög stórt frv. að ræða og afar mikilvægt að áfram verði vel unnið með það. Sifjalaganefnd hefur unnið mikla og góða vinnu. Það eina sem ég saknaði kannski strax í upphafi var að ég heyrði ekki rætt um umsögn frá t.d. Félagsþjónustunni og barnaverndinni, sem að hluta til hefur sinnt þyngri enda þessara mála áður en það verður kannski að miklu barnaverndarmáli og komið til aðstoðar við dómstólana og annað þegar um erfið forsjármál og umgengnisréttarmál er að ræða. En við munum eflaust fá að vita meira um það þegar málið kemur til nefndarinnar og við fjöllum um það þar.

Ég vil að hluta til taka undir það að auðvitað er afar mikilvægt að börn eigi sér talsmann í erfiðum málum. Hins vegar er það líka mjög alvarlegt að blanda börnunum sjálfum á kaf í forræðis- og umgengnisdeilur foreldra sinna. Þar verðum við líka að bera hag barnanna fyrir brjósti og passa að þau þurfi ekki að sitja uppi með ábyrgð á hjónabandi og erfiðleikum foreldra sinna. Þetta er afar viðkvæmt einstigi en við eigum alveg að geta tryggt það að talað sé við börnin og skoðun þeirra komi fram en við verðum að gæta þess að þau verði ekki ,,átómatískt`` aðilar máls. Ekki er mikill og góður réttur í því fólginn að mínu mati hvað varðar hagsmuni barna. Við þurfum fyrst og fremst að treysta það að þau geti örugg haft góða umgengni og gott samband við báða foreldra sína.

Af því að margt af þessu varðar það sem ég hef verið að vinna með til fjölda ára og tekið er fyrir strax í 1. gr., nýmælið um að móður sé skylt að feðra barn sitt, þá vil ég að við ræðum það líka aðeins í nefndinni hvernig eigi að bregðast við í þeim málum þar sem ekki er um slíkt að ræða og verður ekki um að ræða. Það er ekki mögulegt alveg sama hvernig á málið er litið.

Ég hef verið með nokkur slík mál í vinnu minni sem yfirfélagsráðgjafi hjá kvennadeild Landspítala og þessi mál eru afar erfið og þungbær. Þetta á bæði við um nauðgunarmál þar sem stúlkur geta lent í þeirri afneitun að þungun uppgötvast afar seint, kannski jafnvel ekki fyrr en á 7. mánuði. Það er ekki um neinn föður að því barni að ræða. Þannig geta mörg mál verið slungin.

[15:00]

Við þekkjum líka dæmi þess að ef konur sofa hjá erlendis og þungun uppgötvast seint að þá eru litlar ráðstafanir hægt að gera fyrir þær stúlkur. Mér finnst að við þurfum að ræða það aðeins í nefndinni hvernig við getum tryggt þetta, því þetta er í sjálfu sér alveg tryggt í meðförum Tryggingastofnunar. Aðalatriðið er að með einhverjum hætti sé sýnt fram á það að feðrun hafi verið reynd, en við þurfum að gæta þess að við þrengjum þetta ekki um of. Ég er afar sæl með það að ekki er farin danska sektaleiðin í þessu máli vegna þess að við erum um margt mjög ólík Norðurlöndunum. Hér er miklu meira um það að konur séu einar með börn og eigi börn fyrir hjúskap. Það er eins og það sé einhver hefð hér. Þetta er ekki eins algengt annars staðar nema kannski í Finnlandi. Það væri því gaman að skoða slíkan samanburð. Við erum að koma með fín lög og ég vil að við reynum að tryggja þau, og að við skoðum þá þessa hlið.

Aðeins varðandi 5. og 6. gr., um móðerni barns við tæknifrjóvgun. Það er afar skýrt í mínum huga. Eins líka um faðerni barns við tæknifrjóvgun. Hins vegar skil ég ekki hvers vegna við erum ekki með í 6. gr. eða sérgrein um að kona sem gefur egg sé í sömu stöðu og maður sem gefur sæði. Við verðum að tryggja það að kona sem gefur egg, því það er hægt að fá egg, sé með sömu réttarstöðu og sá sem gefur sæði, þannig að hún sé ekki talin móðir þess barns. Það er kannski af því að ég þekki það vel til þessara mála að mér finnst mjög brýnt að við höfum jafnræði þarna á milli þannig að sú kona sem gefur egg lendi ekki í því að hún eigi kannski fimm börn einhvers staðar og svo komi þau öll og vilji fá meðlag. Þetta er afar brýnt af því að við tryggjum sæðisgjafana. Það er auðvitað afar mikilvægt að tryggja það að þau börn sem getin eru við tæknifrjóvgun séu börn þeirra foreldra sem ákveða í sameiningu að fara í tæknifrjóvgun.

Ég vil einnig benda á 7. gr. Það er afar mikilvægt að fá ákveðið form á mál varðandi faðerni barna. Eitt af því sem ég sá um m.a. á kvennadeildinni var að ganga frá gögnum varðandi faðerni barna. Mjög mikilvægt er að það sé á einföldu formi og líka vegna þess að nú er verið að fara þá leið að það sé ekki sjálfkrafa sambúðarmaðurinn, verið er að taka af þá sjálfvirkni og ég tel það um margt mjög rétt. Ég geri því ekki athugasemdir við það.

Mig langar aðeins, þó að ég rúlli svolítið fram og til baka en samt ekki, að minnast á 10. gr. um faðernismálin að mig minnir, þ.e. málsaðildina. Þar er nýmæli að ef maður sem telur sig föður barns höfðar mál skal móður þess stefnt, en ef hún er látin, þá er barninu sjálfu stefnt. Það sem ég næ ekki alveg og kannski spurning hvort ég skil þetta alveg rétt --- en mjög mikilvægt er að tryggja það að sá kostnaður sem þetta barn lendir í falli ekki á það. Við þurfum þess vegna að hafa augun opin fyrir því í nefndinni að við tryggjum það algerlega.

Ég er hins vegar afar ánægð með yfirlýsingu um forsjárskipan barna eftir andlát forsjárforeldra þar sem tekið er mark á yfirlýsingum og stöðu þeirra barna sem í því lenda að missa forsjárforeldra sína. Þá komum við örlítið að því máli sem við nefndum í upphafi þar sem barn er kannski 10 eða 11 ára þegar það missir móður sína og hefur aldrei nokkurn tíma haft umgengni við föður. Þar af leiðandi gefur móðirin ákveðna yfirlýsingu --- talsvert hefur verið af svona málum --- um það hvar hún telur að barninu sé fyrir bestu að vera að henni látinni. Ég er mjög fegin að búið er að gefa þessu ákveðna réttarstöðu, það er afar mikilvægt, og að þetta sé eitthvað sem má gera og er eðlilegt að gera undir ákveðnum kringumstæðum. En vissulega þarf líka alltaf að kanna hag barnsins og hvernig þessu öllu er háttað. Þetta er ekki spurning um að taka rétt af neinum þannig að ég er mjög ánægð að sjá þetta atriði þarna.

Ég er mjög sammála áliti sérfræðinganna og sálfræðinganna sem eru með sérálit sem fylgir frv. um að réttur barns til að tjá sig um málið eigi ekki endilega að vera bundinn við 12 ára aldur. Við ræddum þetta mjög mikið í tengslum við barnaverndarlögin vegna þess að þroski barna mjög misjafn og aðstæður barna eru líka misjafnar. Þetta byggist því fyrst og fremst á mati en að við séum ekki að halda fast í einhvern aldur. Það getur vel verið að 10--11 ára gamalt barn sé miklu færara um að tjá sig en jafnvel 13 ára barn ef svo ber við.

Einnig er mikilvægt að skoða stuðning með talsmanni ef upp koma mörg vandamál og við þurfum í rauninni að skoða gegnumganginn í því máli í lögunum.

Hv. þm. Pétur Blöndal ræddi um foreldraskyldur og forsjá barna og síðan er inntak forsjárinnar skilgreint hér. Það er auðvitað athugandi hvað á að koma fyrst, hvort það er upphafið eða uppeldið eða þeir rammar og eflaust verður þetta atriði líka rætt þá í nefndinni, mætti segja mér.

Ég er afar sátt við að bjóða sérfræðiráðgjöf en 43. gr., sem hæstv. dómsmrh. ræddi m.a. um, truflar mig. Það er eitthvað sem truflar mig í þeirri grein, eitthvað með lagaskil frá barnaverndarlögum til barnalaga. Ég vil að við skoðum það þá sérstaklega í nefndinni því að allt í einu er farið að tala um tilsjónarmann sem er allt annað kerfi, getur ekki verið nýtt í þessu að ég fæ séð, og allt í einu er farið að ræða um barnaverndarnefnd. Mér heyrðist hæstv. dómsmrh. einmitt nefna þetta, þannig að við munum þá að sjálfsögðu skoða það í nefndinni.

Varðandi umgengnina, forsjárskyldurnar og annað, þá er kannski komið að því --- enda er búið að leggja fram frv. sem gengur örlítið lengra en þetta --- að e.t.v. á að skikka sameiginlega forsjá. Það er kannski kjarni málsins. Ég veit að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er 1. flm. að slíku frv. og mun hún þá ræða það hér þar sem ég veit að hún er á mælendaskrá á eftir mér. En einmitt sáttaráðgjöf og öll slík ráðgjöf er afar mikilvæg upp á framtíðartengsl milli foreldra og barna. Það er því mjög mikilvægt að ítreka slíkt.

Hvað varðar meðlögin, þá er það eitt sem truflar mig ævinlega og við þurfum að ræða það líka í nefndinni og spurning hvað Tryggingastofnun segir við því, en það kemur ekki fram að ef úrskurðað er eitt og hálft meðlag, tvöfalt meðlag og ýmis annar kostnaður, hvort sú greiðsla eigi að fara í gegnum Tryggingastofnunina eða ekki. Það hefur náttúrlega hingað til verið þannig að hið einfalda meðlag fer þar í gegn og einnig barnalífeyrir.

Eins varðandi meðlagið eða skólastyrkinn milli 18 ára og tvítugs. Það er mjög erfitt mál fyrir marga krakka og mörg ungmenni. Það eru auðvitað þau eða þá mæður þeirra sem þurfa að fara fram á það við föður eða þá að fara með málið til sýslumanns. Fæstir krakkar gera það nefnilega. Því væri mjög fróðlegt ef við í nefndinni gætum tekið saman þann fjölda barna sem eru með annaðhvort móður eða föður sem forsjáraðila og hversu mörg þeirra eru með þetta meðlag, skólameðlag milli 18 ára og tvítugs. Því það er stundum þannig að þau þurfa að leita til pabba síns og spyrja hvort hann sé ekki til í að greiða áfram meðlag til tvítugs. Afar margir, allt of margir neita því og þá hafa börnin og ungmennin ekki þann stuðning eða þann styrk sem þarf til að ganga eftir því. Þannig að allt byggist þetta á því að reyna að eiga líka sem best samskipti, við skulum ekki gleyma því. Mér finnst því afar mikilvægt að við skoðum það hvernig við getum fest þetta einhvern veginn meira í sessi og hjá Tryggingastofnun. Þetta var um meðlögin.

Afar mörg góð nýmæli eru í frv. og ég veit að það verður mjög spennandi að ræða það í nefndinni. Ekki hvað síst vegna þess að við erum tiltölulega heit úr umræðu þ.e. erum enn með þetta fína minni um barnaverndarlögin og mikilvægi þess að barnalögin séu í takt við allar þær breytingar sem er búið að gera á barnaverndinni þannig að við eigum eflaust eftir að fá marga góða og gagnlega gesti til nefndarinnar til að fjalla um frv. og að sjálfsögðu umsagnir.

Ég vil enn og aftur þakka hæstv. dómsmrh. fyrir greinargóða ræðu hér áðan.