Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 15:13:04 (547)

2002-10-15 15:13:04# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir góða ræðu. Mig langar til að vekja athygli á sérstaklega því atriði sem hv. þm. nefndi, þ.e. í 1. gr. frv.: ,,Móður er skylt að feðra barn sitt þegar feðrunarreglur 2. gr. eiga ekki við.`` Það kom mér nokkuð á óvart að þetta mál var talsvert til umræðu, í opinberri umræðu í þjóðfélaginu og það var eins og fólki kæmi á óvart að nú ætti að fara að skylda mæður til þess, en þótt það hafi ekki verið beint sagt í gildandi barnalögum, þá hefur í raun og veru alltaf verið gengið út frá því. En auðvitað geta málsatvik verið mismunandi. Nú er það tekið skýrt fram í þessu lagaákvæði að móðir eigi að feðra barn sitt. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því að tekin verði upp einhver sérstök viðurlög við því ef móðir tekur ekki undir þessi tilmæli og feðrar ekki barn sitt. Ég vildi bara leggja áherslu á það, en á móti er hins vegar lagður meiri réttur til feðra eins og t.d. með aðild að faðernismáli.