Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 15:15:18 (549)

2002-10-15 15:15:18# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[15:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til barnalaga. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir framsögu hennar og verð að segja að það er mjög margt gott í þessu frv. sem ég get tekið undir. Eins og fram kom fyrr í dag eru hér á eftir á dagskrá tvö frv. sem ég er 1. flm. að ásamt félögum mínum í Samfylkingunni. Þar er annars vegar breyting sem tekið er á í frv. hæstv. ráðherra og svo önnur breyting sem ekki er í frv. hennar en ég hefði gjarnan viljað að nefndin skoðaði. Ég hef fallist á að bæði þessi frv. fari órædd til nefndar að lokinni umræðunni um stjórnarfrumvarpið.

Það eru örfá atriði í frv. sem mig langar til að minnast á og gera athugasemdir við. Síðan mun ég koma að breytingunum í frumvörpunum sem ég er 1. flm. að, um breytingu á barnalögum.

Ég fagna því að í 33. gr. frv. er komið ákvæði um sérfræðiráðgjöfina. Ég hef einmitt nokkrum sinnum flutt frv. til laga um breytingu á barnalögum, um að sérfræðiráðgjöf skuli veitt við skilnað. Ég tel jafnvel að skoða ætti hvort það ætti ekki að vera skylda eins og er í Noregi. Norðmenn hafa sett upp skyldusérfræðiráðgjöf, ákveðin skipti við skilnað eða sambúðarslit. Það hefur reynst mjög vel sérstaklega ef sambúðarfólkið á börn, í að ná niðurstöðu um hvernig framtíð þeirra skuli háttað. Ég tel að við eigum að skoða hvort skylda eigi fólk í sérfræðiráðgjöf.

Annað hef ég lagt hér til í þinginu í frumvarpi nokkrum sinnum, þ.e. að barni skuli skipaður talsmaður. Hæstv. ráðherra kom inn á umræður og skiptar skoðanir um það. Hún sagði að menn hefðu komist að niðurstöðu um að óæskilegt væri að barn væri aðili máls. En það þarf auðvitað ekki að vera svo því að oft getur það haft mjög góð áhrif ef barni er skipaður óháður talsmaður, sérstaklega við forsjár- og umgengnismál, sem þarf ekki að vera beinn aðili máls.

Ég verð að taka undir þær athugasemdir sem fram komu í andsvari hjá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Það er mjög oft að feður koma að máli við mig og telja sig mjög illa stadda, hafa slæma réttarstöðu eða erfiða. Það er jafnvel svo að foreldrar barna ræða um þetta vandamál. Mæður hafa líka rætt það, að t.d. sé erfitt að koma á umgengni ef konur séu með barnið einar. Þá væri t.d. líka hægt að vera með talsmann sem kæmi á sambandi við föðurinn sem hefur ekki sinnt barninu, ef það er unnt. Það væri hægt að nota talsmanninn sem slíkan milligöngumann um að koma á sambandi við þau börn sem faðir ekki sinnir.

Við vitum að allur er gangur á því hvort feður rækja skyldur sínar við börn sín eða ekki en því miður er of mikið um að feðrum sem vilja sinna börnunum sínum sé tálmuð umgengni við þau. Ég hef allt of oft fengið slík dæmi upp á mitt borð þar sem feður kvarta yfir því að þeir geti ekki sinnt börnunum sínum sem skyldi, það líði of langur tími áður en þeir geta umgengist þau eftir skilnað. Þar sem ég á ekki, herra forseti, sæti í allshn. hefði ég gjarnan viljað koma þessum athugasemdum til nefndarinnar þannig að hún skoðaði jafnvel þau þingmál sem ég hef flutt um þetta efni.

Mig langar einnig að koma að atriði sem ég fagna sérstaklega, þ.e. að karlar geti átt aðild að barnsfaðernismálum, þ.e. að feður geti komið að þeim málum. Ég hef í þrígang flutt frv. ásamt þingmönnum úr Samfylkingunni um að það séu ekki einungis móðir og barn sem geti átt aðild að barnsfaðernismálum heldur einnig feður. Ég hefði talið að sú breyting hefði átt að vera komin inn í lögin. Það var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í desember 2000, um að þetta væri ágalli á barnalögunum og bryti í bága við 70. gr. stjórnarskrárinnar, að feður skuli ekki geta farið í barnsfaðernismál. Ég fagna því hins vegar að þetta er komið frá stjórnvöldum. Þetta hefur nú ekki fengið miklar undirtektir þegar ég hef mælt fyrir því áður í þinginu en dropinn hefur greinilega holað steininn. Þetta er komið hér fram í stjórnarfrv. og ég fagna því, lýsi því hér með yfir.

Ég vil síðan koma að nokkru sem fjallað er um í frv. mínu á þskj. 31, sem er hér á dagskránni á eftir, þ.e. að sameiginleg forsjá verði meginregla í íslenskum lögum. Í sumar sótti ég stóran fund á Grand Hótel um málefni barna, réttindi þeirra og réttindi og skyldur feðra. Þar var mikil umræða um þessi mál. Niðurstaða sérfræðinganna sem sátu þann fund var að mikilvægt væri að í íslenskum lögum yrði tekin upp sú regla að sameiginleg forsjá væri meginreglan í lögunum.

Í júní 1999 skilaði forsjárnefnd, sem dómsmrh. hafði skipað, af sér áfangaskýrslu þar sem fjallað var um reynsluna af sameiginlegri forsjá hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Þar kemur fram að bæði í Finnlandi og Svíþjóð hafi sameiginleg forsjá verið gerð að meginreglu við skilnað foreldra. Niðurstaða nefndarinnar er sú að rétt sé að feta í fótspor þessara þjóða. Ein meginröksemd for\-sjárnefndar fyrir sameiginlegri forsjá sem meginreglu er að slíkt fyrirkomulag samrýmist best 1. mgr. 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland hefur fullgilt. Hér á landi voru lögtekin ákvæði sem heimila sameiginlega forsjá en það var ekki fyrr en 1992 sem það kom í lög.

Ég vitnaði til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en í 18. gr. hans segir að aðildarríki skuli gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar eða lögráðamenn, ef við á, bera ábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska, það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.

Við sem flytjum þetta frv., sem er hér næst á dagskránni, um að sameiginleg forsjá skuli vera meginreglan, teljum að með því að gera sameiginlega forsjá að meginreglu geri íslenska ríkið það sem í þess valdi stendur til að tryggja sameiginlega ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna. Réttur foreldris til að fara með forsjá barns síns er réttlætismál og á sama hátt er það réttlætismál fyrir barnið að njóta forsjár þess þótt foreldri geti vissulega fyrirgert rétti sínum með því að bregðast skyldum sínum. Löggjafanum ber því að stuðla að því að réttur beggja foreldra sé tryggður svo sem framast er unnt. Réttur foreldris til að fara með forsjá barns síns er jafnframt tilfinningamál. Það skiptir máli fyrir foreldri tilfinningalega að hafa eitthvað að segja um framtíð barns síns. Sameiginleg forsjá tryggir rétt beggja foreldra hvað þetta varðar, að því marki sem unnt er. Þá má ætla að sameiginleg forsjá sé til þess fallin að efla ábyrgðarkennd foreldra gagnvart barni og hvetja þá til að ná samkomulagi um ráðstafanir sem varða hagsmuni þess.

Með frv. sem við leggjum fram er því lagt til að við hjónaskilnað eða sambúðarslit foreldra fari þeir áfram sameiginlega með forsjá barna sinna nema um annað sé samið. Foreldrar verða þó að ná samkomulagi um hvar barnið skuli eiga lögheimili og að jafnaði hafa búsetu.

Grundvöllur sameiginlegrar forsjár samkvæmt gildandi lögum er að foreldrar séu sammála um þá skipan mála. Það mun því í raun ekki breytast verði frv. sem við leggjum til að lögum. Foreldrar þurfa, eins og áður sagði, að ná samkomulagi um það hvar barnið skuli eiga lögheimili með þeim réttaráhrifum sem því fylgir. Náist ekki samkomulag um þetta er grundvöllur sameiginlegrar forsjár brostinn. Þá verður að ákvarða hvort foreldrið skuli fara með forsjá barnsins eftir þeim leiðum sem lögin gera ráð fyrir. Þannig mun sameiginleg forsjá foreldra með barni eftir sem áður byggjast á samkomulagi. Breytingin sem við leggjum til hefur þannig ekki síst huglæga þýðingu þar sem löggjafinn sendir þau skilaboð að sameiginleg forsjá sé sú skipan mála sem þjóni hagsmunum barns og beggja foreldra best, sé hún á annað borð möguleg.

Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. núgildandi laga fer móðir ein með forsjá barns ef foreldrar eru ekki í hjúskap eða sambúð við fæðingu þess. Við leggjum ekki til að breyting verði á því fyrirkomulagi enda aðstæður þá oft aðrar en við skilnað eða sambúðarslit foreldra.

Við leggjum þetta til og ég óska eftir því, herra forseti, að þetta verði skoðað í nefndinni. Ég tel mikilvægt að menn skoði þessi mál. Ég tel persónulega, eftir að hafa hlustað á rök margra sérfræðinga sem fjölluðu um þetta mál á þeim fundi sem ég vísaði til í sumar, að þetta sé betri leið. Ég tel að menn eigi að skoða í nefndinni reynslu Finna og Svía af þessu. Ég veit að það er verið að huga að þessum málum annars staðar á Norðurlöndum einnig og tel því mjög mikilvægt að menn skoði þetta atriði um sameiginlega forsjána sem meginreglu. Ég tel einnig að menn þurfi að skoða betur hugmyndina um talsmann fyrir börn, sérstaklega til að börn líði ekki fyrir deilur foreldra t.d. í forsjárdeilum eða umgengnismálum. Sömuleiðis mundi það hjálpa til við að koma á samskiptum við foreldra sem ekki sinna börnum sínum, sem eru oftar feður.

Auðvitað þarf að skoða ýmis fleiri mál sem ég efast ekki um að sérfræðingarnir í nefndinni skoði en mér hefur verið bent á að ýmis atriði þurfi að laga til, t.d. svo að feður sem vilja umgangast börn sín og vilja sinna þeim geti gert það, en það er ýmislegt sem torveldar það. En ég býst við að hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir sem á sæti í nefndinni muni leggja þær athugasemdir fyrir í nefndarvinnunni.

Ég þakka fyrir þær breytingar sem eru gerðar. Mér virðast flestar þeirra til bóta. Sérstaklega vil ég fagna því að breyting á aðgangi feðra að barnsfaðernismálum skuli komin hér inn á borð okkar frá ríkisstjórninni. Ég var orðin dálítið vondauf eftir að hafa talað fyrir því máli í þrígang.