Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 15:32:45 (552)

2002-10-15 15:32:45# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þetta umfangsmikla frv. og um leið fyrir tækifæri okkar þingmanna á að ræða það hér. Ég er afskaplega fegin því að ekki var farin sú leið að bæta við enn einu púslinu í gömlu barnalögin, bæta við þá mósaíkmynd. Þó að mósaík geti oft verið falleg þá geta slík lög orðið erfið og ljót. Ég er því mjög fegin að við ræðum þetta yfirgripsmikla frv. sem ber þess merki að vera afskaplega vel unnið. Það er vel til þess vandað og kannski ekki annars að vænta þegar maður les hverjir stóðu að því að semja það, hvaða einstaklingar voru í sifjalaganefndinni sem lagði frv. fram til ráðherra sem leggur það síðan fyrir hv. Alþingi.

Ég ætla að stikla á nokkrum atriðum en eðlilega kem ég til með að fjalla mjög gaumgæfilega um frv. í hv. allshn. Fyrst vil ég fara yfir það sem m.a. hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir nefndi, þ.e. tvö atriði sem mig langar til að minnast á sem hún kom inn á.

Varðandi 1. gr. frv. þá er ég sammála því að við förum ekki þessa dönsku leið að setja inn sektarákvæði. Ég held að það sé einfaldlega ekki raunhæft. Það er gott að litið var til þess sem veruleikinn býður upp á í þessum efnum. Hins vegar getur þetta verið vandmeðfarið, til að mynda þegar getnaður hefur orðið í kjölfar nauðgunar. Þá getur verið mjög erfitt að fylgja þessu eftir. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir minntist á nokkur önnur dæmi. Síðan þekkir maður líka til þess að móðir neiti einfaldlega að gefa upp hver faðirinn er, m.a. með tilliti til þess hver faðirinn er. Þá er kannski ekki beinlínis verið að taka tillit til þeirra hagsmuna barnsins að vita hver faðirinn er, heldur að vernda sjálfan föðurinn. Þetta er einfaldlega atriði sem að mínu mati kemur til með að ráðast af nauðsyn og þörf hverju sinni. En engu að síður er gott að sektarákvæðið skyldi ekki sett inn eins og gert var í Danmörku.

Varðandi tæknifrjóvgunina og það sem kemur fram í 5. og 6. gr., þá fagna ég þessum ákvæðum. Þar er mjög skýrt tekið á þessu. Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir gat þess að hún vildi að sérstaklega yrði tekið fram hvernig fara skyldi með gjafaegg móður eins og getið er um gjafasæði. Ég held hins vegar að 5. gr. í skýri þetta í raun sjálf, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst móðir þess.``

Hvort sem það er gjafaegg eða gjafasæði þá skiptir það ekki máli og er ekki verið að gera greinarmun þar á milli. Sé um tæknifrjóvgun að ræða, hvort sem er af gjafaeggi eða gjafasæði, er konan móðirin. Ég tel því ekki ástæðu til að taka það sérstaklega fram að kona sem hefur samþykkt að gefa egg sitt hafi þar með afsalað sér réttinum, þ.e. það leiðir af sjálfu sér þegar maður les 5. gr. En að sjálfsögðu komum við til með að skoða þetta nánar við meðferð allshn. á frv.

Ég hjó eftir einu í ágætu áliti starfshópsins vegna bréfs sifjalaganefndar sem er fylgiskjal með frv. Ég tek í meginatriðum undir það sem segir í því áliti en fyrir forvitnissakir langar mig að fá álit ráðherra á því sem segir í því bréfi, þó að það hafi síðan ekki verið tekið upp í 43. gr. heldur var einfaldlega vitnað til þess að barnaverndarnefnd ætti að taka tillit til þess hvort og hver talsmaðurinn væri. Mig langar að vita hvort ráðherra taki undir það sjónarmið að þessi talsmaður sé, eins og segir í áliti þessa hóps, með leyfi forseta:

,,Í þessu tilliti vill hópurinn leggja áherslu á að með talsmanni er átt við fagmann á sviði sálfræði, barnageðlækninga eða félagsráðgjafar.``

Ég skil þetta mætavel en þekki það líka að aðrir hafa líka sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Í því sambandi vil ég m.a. benda á lögfræðinga sem hafa eingöngu sérhæft sig í svona málum. Ég held að það hefði e.t.v. átt að taka þá með inn í en það fellur kannski um sjálft sig vegna þess sem segir í frv. Þar er einfaldlega bent á í 4. mgr. 43. gr., með leyfi forseta:

,,Dómari getur, ef þörf er á, beint þeim tilmælum til barnaverndarnefndar í því umdæmi þar sem barn er búsett að nefndin skipi barninu tilsjónarmann til að vera því til stuðnings við meðferð forsjármálsins.``

Að mínu mati er þessi tilsjónarmaður einhver þeirra sérfræðinga sem í bréfinu er getið um, en að auki aðrir sérfræðingar. Það á ekki að útiloka aðra sérfræðinga.

Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fjallaði um frv. til barnalaga sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram sem varðar sameiginlegu forsjána, þ.e. að hún verði meginregla. Vissulega gerir margt það að verkum að allshn. kemur til með að skoða þessi mál mjög gaumgæfilega, m.a. munum við lesa vel allar umsagnir sem við fáum um frv. Við komum til með að líta til reynslu Finna og Svía og skoða blákalt hvor leiðin er betri.

Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst það mjög sannfærandi rök sem getið er um í frv. og sem hæstv. ráðherra vitnaði í þar sem segir m.a., herra forseti:

,,Því ætti ekki að hrófla við þessu fyrirkomulagi`` --- þ.e. núverandi fyrirkomulagi --- ,,nema að vel athuguðu máli og sérstök fagleg rök mæltu með breytingum á því.``

Bent er á það að við skilnað leiði foreldrar hugann að því hvaða forsjárskipan komi börnunum raunverulega best en síðan eru lagðar til breytingar sem ýta á eða styðja enn frekar við hina sameiginlegu forsjá. Mér finnst þetta vel rökstutt og við komum að sjálfsögðu til með að skoða þetta enn betur í nefndinni.

Annað langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um og það varðar líka sameiginlegu forsjána. Í umfjöllun um 31. gr. frv. er m.a. farið inn á könnun sem gerð var á bilinu frá 1. janúar 1994 til 31. desember 1996. Úrtakið var þúsund manns í rannsókn sem náði til 701 foreldris sem fór sameiginlega með forsjá, foreldra sem höfðu annaðhvort slitið sambúð eða fengið lögskilnað á þessu tímabili. Þar kemur m.a. fram að 50% af konunum sem höfðu haft reynslu af sameiginlegri forsjá sögðu að þær hefðu haft góða reynslu af henni, 21% þeirra voru hlutlausar, en 29% sögðust hafa slæma reynslu. Sem sagt tæplega einn þriðji þeirra kvenna sem höfðu reynslu af sameiginlegri forsjá höfðu slæma reynslu en einungis 10% karlanna höfðu slæma reynslu af sameiginlegri forsjá.

Forvitnilegt væri að skoða hvað býr að baki þessari slæmu reynslu, m.a. hafa foreldrar leitað til mín vegna vandræða sem þeir hafa átt í við að losa sig undan sameiginlegri forsjá þegar aðilar eru ekki sammála. Þá er bara ein leið til, þ.e. að fara dómstólaleiðina. Hún er oft mjög tímafrek og tekur á, sérstaklega í þeim tilfellum er um ofbeldi hefur verið að ræða af hálfu þess sem neitar að gefa eftir hina sameiginlegu forsjá. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi verið farið út í nánari rannsókn á þeirri reynslu sem foreldrar hafa af sameiginlegri forsjá.

Það er síðan eitt tæknilegt atriði sem ég vildi fá nánari skýringu á, sem varðar 1. mgr. 75. gr. barnalagafrv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ákvæði 15.--19. gr. stjórnsýslulaga gilda um rétt aðila til að kynna sér skjöl og önnur gögn er mál varða.``

Hér er um sérlög að ræða. Er það þá réttur skilningur að stjórnsýslulögin gildi ekki nema um 15.--19. gr.? Ég vildi gjarnan fá staðfestingu á því hjá hæstv. ráðherra.

Að öðru leyti vil ég enn þakka fyrir þetta ágæta frv. Við komum til með að fara mjög vel yfir efni þess. Þetta er sem betur fer þannig mál að það er þverpólitískt. Allir hafa áhuga á þessum málum og metnað í þá veru að Alþingi afgreiði góð lög sem eru fyrst og fremst barninu fyrir bestu.