Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 16:17:37 (559)

2002-10-15 16:17:37# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[16:17]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Starfsmenn dómsmrn. hafa mjög náið samband við sýslumenn landsins og stundum eru haldin sérstök námskeið þar sem fjallað er um nýmæli í lögum, t.d. um það sem hv. þm. spurði um. Þá held ég að mér sé óhætt að fullyrða að haldin hafi verið námskeið fyrir sýslumenn landsins þar sem farið var yfir þetta nýja lagaúrræði í núgildandi barnalögum, þ.e. sameiginlega forsjá, og hverjar skyldur sýslumanna væru í því sambandi.

En það er vafalaust rétt hjá hv. þingmanni að kannski þarf að halda mönnum við efnið og ítreka mikilvægi þess að sýslumenn gæti vel að því að leiðbeina foreldrum. Það er jú afskaplega mikilvægt til þess að fólk nái einmitt sátt í þessum málum og að börnin verði ekki bitbein í deilum foreldra. Það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir samfélagið allt og við munum fylgjast mjög vel með þessu máli og athuga hvort þörf verður á meiri fræðslu í því sambandi.