Skipamælingar

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 16:54:59 (564)

2002-10-15 16:54:59# 128. lþ. 10.8 fundur 158. mál: #A skipamælingar# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[16:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skipamælingar. Frumvarp þetta er samið í samgrn. í samráði við Siglingastofnun Íslands. Meginástæða fyrir framlagningu frv. er að festa í sessi nýja viðmiðun við mælingu skipa.

Í frumvarpinu er kveðið á um að skip, 24 metrar að lengd og lengri skuli mælast í brúttótonnum í stað brúttórúmlesta. Það er í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að, svo sem alþjóðasamþykkt um mælingu skipa sem undirrituð var í Lundúnum 23. júní 1969.

Um mælingu skipa sem eru styttri en 24 metrar er gert ráð fyrir að samgrh. setji reglur að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands. Með frv. er jafnframt verið að styrkja lagagrunn fyrir töku gjalda fyrir þjónustu Siglingastofnunar við mælingu skipa, endurmælingar og útgáfu mælibréfa.

Að undanförnu hafa átt sér stað ýmsar lagabreytingar er varða gjaldtöku opinberra stofnana fyrir veitta þjónustu og hefur samgrn. og Siglingastofnun Íslands skoðað með skipulegum hætti hvernig gjaldtökuákvæðum er hagað í lögum sem fjalla um siglingar og gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði sérstök gjaldskrá um mælingu skipa sem tekur mið af beinum kostnaði Siglingastofnunar þar að lútandi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgn.