Skipamælingar

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 17:01:02 (567)

2002-10-15 17:01:02# 128. lþ. 10.8 fundur 158. mál: #A skipamælingar# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[17:01]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirlýsinguna. Ég tel að ýmsir hafi haft áhyggjur af því að einhverjar breytingar gætu orðið vegna fundahalda sem voru einhvern tíma á árinu um hugsanlegar breytingar á mælingareglunum. Ég er ekki einn af þeim sem halda því fram að ekki megi breyta þessum reglum eitthvað. Það er hins vegar mjög vandmeðfarið og erfitt að gera það öðruvísi en að það gerist sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. að réttindi aukist eða skerðist vegna breyttra reglna. Gildandi mælingareglur eru ekki gallalausar og þess vegna er ástæða til að menn skoði málin vel. Ég tel að það þyrfti að gera í mjög nánu samráði við sjútvrn. og þá aðila sem hafa hagsmuna að gæta ef reglum yrði breytt að þessu leyti. Það er ekki gert nema með því að liggja verulega yfir því og leggja í það mikla vinnu ef á að komast hjá óhöppum í þeirri endurskoðun.