Kvennahreyfingin á Íslandi

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 17:02:53 (568)

2002-10-15 17:02:53# 128. lþ. 10.10 fundur 19. mál: #A kvennahreyfingin á Íslandi# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[17:02]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um bætt starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna á Íslandi. Flm. auk mín er hv. þm. Þuríður Backman. Tillögutextinn hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að stuðla að bættu starfsumhverfi kvennahreyfingarinnar og annarra hópa sem vinna að jafnari stöðu kynjanna á Íslandi. Það verði m.a. gert á eftirfarandi hátt:

a. Stofnaður verði sjóður með lið á fjárlögum í þeim tilgangi að styrkja hvers konar starf félagasamtaka, hópa og einstaklinga sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna. Hluta sjóðsins verði varið til þess að tryggja þátttöku sömu hópa í alþjóðlegu starfi.

b. Jafnréttisfulltrúum eða öðrum starfsmönnum ráðuneytanna verði falið að koma á beinum tengslum fagráðuneyta og þeirra samtaka, hópa og einstaklinga sem innan starfssviðs hvers ráðuneytis vinna að jafnari stöðu kynjanna á hverjum tíma.``

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að frjáls félagasamtök hafa gegnt afar miklu hlutverki í þeirri viðleitni stjórnvalda að koma á jafnari stöðu kynjanna. Það nægir að nefna Peking-ráðstefnuna sem Sameinuðu þjóðirnar héldu um málefni kvenna 4.--15. september 1995 og sömuleiðis aðrar ráðstefnur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið, bæði um þetta málefni og önnur. Í starfi Sameinuðu þjóðanna er gífurlega mikil áhersla lögð á lifandi og opið samstarf við félagasamtök, og samhliða Peking-ráðstefnunni var efnt til samkomu félagasamtaka sem störfuðu á þessum grunni. Hún var öflug og mikil, hófst viku áður en Peking-ráðstefnan, hin eiginlega ráðstefna, hófst og skaraðist við hana. Þá var alveg ljóst að þeir sem sóttu þessa ráðstefnu, ráðstefnu félagasamtakanna, hafa allir lokið upp einum munni um það að þar hafi verið unnið mikið, skapandi og skemmtilegt starf. Sannleikurinn er sá að ráðstefna félagasamtakanna hafði á endanum gífurlega mikil áhrif, bæði á störf ráðstefnunnar og efni Peking-áætlunarinnar sem samþykkt var á ráðstefnunni.

Það vita líka allir í þessum sal að á Peking-ráðstefnunni var samþykkt að ríkisstjórnir aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna settu sér framkvæmdaáætlun þar sem tíunduð væru þau verkefni Peking-áætlunarinnar sem væri hvað mest aðkallandi að vinna að í viðkomandi ríkjum. Á grunni Peking-áætlunarinnar er síðan reist sú stefna ríkisstjórnar Íslands i jafnréttismálum sem nú er í gildi og jafnan er kynnt með skýrslu félmrh. árlega á hinu háa Alþingi.

Ég er hér með síðustu skýrslu hæstv. félmrh. sem flutt var á síðasta löggjafarþingi, því 127. Þar getur hæstv. ráðherra reyndar ekki í neinu starfa félagasamtaka á þessum vettvangi en að mati þeirra sem flytja þessa tillögu, herra forseti, er starfsemi frjálsra félagasamtaka einn af hornsteinum lýðræðisins. Það verður að segjast eins og er að þau starfa í beinum tengslum við grasrótina og eru oft í betri aðstöðu en stjórnvöld til þess að bregðast vafningalaust við nýjum aðstæðum og skilgreina þarfir og skoðanir almennra borgara. Frjáls félagasamtök koma á framfæri sjónarmiðum og ábendingum sem koma stjórnvöldum að gagni og verka þannig sem mótvægi við stjórnkerfi sem oft er þungt og seinvirkt.

Á þessum vettvangi, þ.e. vettvangi kvennahreyfinganna, er alveg ljóst að þessi frjálsu félagasamtök gegna gífurlega miklu hlutverki. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hlutverk þurfi að meta að verðleikum hér á landi og skapa svigrúm fyrir nýja hópa með nýjar hugmyndir. Það þarf sömuleiðis að veita brautargengi góðum hugmyndum sem gætu haft öflug keðjuverkandi áhrif í átt til þess að leiðrétta kynjamisrétti á Íslandi. Það er á einhvern hátt eðli þeirra hópa sem skotið hafa upp kollinum á þessum vettvangi kvennahreyfinganna að hóparnir eru oft og tíðum litlir, fámennir og ekki þannig skipulagðir að auðvelt sé að henda á því reiður hverjir eru starfandi á hverjum tíma. Þessir hópar eru oft fremur lítt skilgreindir en vinna öflugt starf í skamman tíma að mjög afmörkuðum málefnum. Það er afar mikilvægt að hópar af þessu tagi eigi einhvern möguleika á því að ná árangri í starfi sínu. Það er líka mjög nauðsynlegt fyrir hópa af þessu tagi að þeir eigi einhvers konar möguleika á að sækja ráðstefnur í útlöndum. Þær eru haldnar í tugatali á hverju ári, ráðstefnurnar sem hópar af þessu tagi hefðu mikið gagn af að sækja, og það er yfirlýst stefna stjórnvalda hér á landi, ef marka má orð sem hafa verið látin falla í tengslum við Árósasamninginn, að það beri að auka möguleika frjálsra félagasamtaka til að hafa áhrif á stjórnsýsluna.

Það má auðvitað segja að stjórnvöld hér komi að vissu marki til móts við rótgróin félagasamtök eins og ungmennahreyfinguna, íþróttahreyfinguna, skáta og fleiri samtök með hefðbundið skipulag og uppbyggingu en það er hins vegar erfiðara um vik hjá óformlegri hópum sem ekki hafa neinar félagaskrár og finnast hvergi á skrám yfir formleg félagasamtök. En það má nefna að hópar af því taginu hafa brugðist skjótt við nýjum aðstæðum og hafa starfað að afmörkuðum verkefnum í stuttan tíma, t.d. Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöf, Stígamót og fleiri sem hafa stigið sín fyrstu skref á þessum nótum. Svo má nefna smærri hópa eins og Konur gegn klámi, áhugahóp um aðgerðir til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir unglingsstúlkna og fleiri hópa eflaust.

Það er mjög mikilvægt fyrir hópa af þessu tagi að þeir fái byr undir vængina meðan orkan er til staðar en ekki sé beðið eftir því að hóparnir séu látnir sanna sig á einhvern hátt áður en hægt er að fara að veita þeim fjárhagslegt brautargengi.

Það má segja að sú tillaga sem hér er flutt sé í öllum meginatriðum samhljóða tillögu sem flutt var á 123. löggjafarþingi. Þá var hugmyndin sótt til norskrar stjórnsýslu en í Noregi hefur verið komið á því kerfi að barna- og fjölskyldumálaráðuneytið auglýsir árlega eftir umsóknum um styrki til kvennapólitískrar upplýsingastarfsemi og einnig til kvennapólitísks alþjóðastarfs. Hugmyndin um sjóðinn er sem sagt sótt þangað og það er alveg ljóst að styrkirnir sem veittir hafa verið í Noregi hafa tryggt þann jarðveg sem er nauðsynlegur fyrir frjótt starf af þessu tagi. Þar í landi er haft samráð og gagnkvæmt upplýsingaflæði milli stjórnvalda og kvennahreyfingarinnar. Þar er einnig hefð fyrir því í utanríkisráðuneytinu að hugmyndir sem snerta konur á alþjóðavettvangi og drög að samningum séu send til umsagnar þeirra aðila sem starfa að málefnum kvenna, og upplýsinga- og samráðsfundir eru haldnir í ráðuneytinu þegar þurfa þykir.

Norska barna- og fjölskyldumálaráðuneytið kom á þeirri hefð fyrir um það bil tveim áratugum að hafa samráðsfundi og gagnkvæmt upplýsingaflæði á milli ráðuneytisins, stofnana, frjálsra félagasamtaka og baráttuhópa. Hefur það samstarf gefið afar góða raun og tryggt sýnilegan árangur. Það er á þeirri hugmyndafræði, herra forseti, sem þessi tillaga er byggð því að við flutningsmenn erum þeirrar skoðunar að íslensk stjórnvöld þurfi á sama hátt og þau norsku að hafa félagasamtök á þessu sviði með í ráðum og bera hugmyndir sínar undir slíka aðila þegar um er að ræða mál er varða áhuga- og baráttumál þeirra.

Það ætti að vera fengur í því fyrir íslenska stjórnsýslu að nýta alla þá reynslu og þekkingu sem safnast hefur saman innan kvennahreyfingarinnar. Í mörgum tilfellum er um sérfræðikunnáttu að ræða sem nauðsynlegt er fyrir opinbera aðila að hafa aðgang að og einnig ætti að kappkosta að kynna kvennahreyfingunni hugmyndir og fyrirætlanir sem opinberir aðilar vinna að og hafa um þær samráð.

Það er hugmynd flutningsmanna, herra forseti, að komið verði á formlegum boðleiðum milli einstakra fagráðuneyta og félagasamtaka, hópa og/eða einstaklinga sem vinna að því að jafna stöðu kynjanna og það verði í verkahring jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna eða annarra starfsmanna sem ráðuneytin tilnefna að annast þetta starf. Á þann hátt teljum við að tryggja megi upplýsingastreymi og samskipti milli hins opinbera kerfis og þeirra sem starfa í grasrótinni á hverjum tíma. Það er afar mikilvægt, herra forseti, að þessar samskiptaleiðir séu gerðar formlega því að þó að nokkuð sé um liðið síðan ráðuneytin eignuðust jafnréttisfulltrúa og nokkur þeirra komin með opinbera jafnréttisstefnu hefur þessi samskiptaleið frjálsu félagasamtakanna við jafnréttisfulltrúana ekki verið skilgreind og þar af leiðandi kannski ekki verið opin sem skyldi. Við viljum ekki binda það við jafnréttisfulltrúa fagráðuneytanna að hafa þessa skyldu á herðum sér og þess vegna er í tillögunni gert ráð fyrir að ráðuneytin geti tilnefnt þá starfsmenn sem þau vilja í þetta hlutverk.

Sjóður sá sem tillagan gerir ráð fyrir að stofnaður verði í þeim tilgangi að styrkja starf samtaka, hópa og einstaklinga sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna ásamt þátttöku í alþjóðlegu starfi yrði sérgreindur liður á fjárlögum, hefði faglega sjóðstjórn og yrði þannig sambærilegur við sjóði sem styrkja starf á sviði menningar og lista. Það er alveg ljóst að setja þyrfti sjóðnum reglur sem kvæðu nánar á um framkvæmdina, skipun sjóðstjórnar og það hvar sjóðurinn yrði hýstur. Flutningsmenn hafa kosið að halda þessum atriðum opnum þannig að möguleiki og svigrúm sé til þess að skapa starfsvettvang fyrir þennan sjóð sem henta þykir þegar menn hafa fjallað málefnalega um slíka sjóðstofnun.

Eins og lýst er í greinargerð með frv. eru þær hugmyndir sem kvikna í grasrótinni oft þess eðlis að þær þurfa ekki nema örlitla aðhlynningu til að bera góðan ávöxt. Ef lögð er rækt við að fanga slíkar hugmyndir má skapa það umhverfi sem þarf til að kvennahreyfingin og stjórnvöld í sameiningu geti í raun jafnað stöðu kynjanna.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að máli þessu verði vísað til hv. félmn.