Aðgerðir til að efla löggæslu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:35:41 (572)

2002-10-16 13:35:41# 128. lþ. 12.1 fundur 67. mál: #A aðgerðir til að efla löggæslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:35]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er endurtekið efni frá því í vor. Hæstv. dómsmrh. upplýsti þá í umræðum um grenndarlöggæslu hér á Alþingi að vinna væri hafin í ráðuneytinu til að leggja mat á hvernig unnt væri að efla löggæslu, nýta betur fjármagn með samvinnu lögregluliða og spurt er: Hvað líður aðgerðum?

Það er alveg ljóst að samkvæmt fjárlagafrv. sem hefur verið lagt fram er stöðugildum ekki fjölgað. Í fyrra var fjölgað um eitt stöðugildi í Kópavogi og um hálft stöðugildi á Blönduósi. Sú aðgerð tók reyndar ekki á neinu. Sú aðgerð var eingöngu klór í bakkann. Við þingmenn Reykn. höfum margoft bent á óánægju í sveitarfélögunum á Reykjanesi. Það er sama hvort við tökum mið af Mosfellsbæ, Grindavík eða Garði. Alls staðar er kvartað og menn hafa áhyggjur af því að löggæslu sé sinnt frá kl. 10--5 á fleiri og fleiri stöðum og spyrja má hvort það sé framtíðin, herra forseti.

Ég verð að nefna Kópavog. Í ársskýrslu ríkislögreglustjóra sem okkur þingmönnum hefur borist er samanburður þar sem tekið er fyrir hversu mörg stöðugildi er að finna í sveitarfélögum landsins og á íbúa. Hvergi er ástandið eins og í Kópavogi þar sem eru 905 íbúar um hvert stöðugildi. Þetta er algerlega óviðunandi í 25 þúsund manna bæ. Nú á reyndar að flytja umferðardeildina frá ríkislögreglustjóra til Kópavogs. Það munu vera sjö menn. Þeir munu samt vinna áfram eftir skipulagi ríkislögreglustjóra. Þeir verða áfram með sömu verkefni. Þeir fara ekki í útköll eða sýnilega löggæslu og ég spyr: Er bara verið að búa þessum mönnum húsaskjól eða er e.t.v. ætlunin að tilkoma þeirra í Kópavog muni síðar gefa betri mynd af löggæslumálunum þar þegar farið verður að telja saman lögreglumenn og stöðugildi í Kópavogi og íbúafjöldann að baki þeim?

Hefur stefna verið mörkuð í ráðuneytinu varðandi þessi mál? Er það e.t.v. stefnan að flytja deildir til og frá með starfsemina að óbreyttu? Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað ætlar dómsmrh. að gera varðandi þessi erfiðu mál og allt of fáa lögreglumenn á mörgum stöðum og mikinn þunga íbúanna þar sem kallað er eftir aðgerðum í þágu fólksins?