Aðgerðir til að efla löggæslu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:38:47 (573)

2002-10-16 13:38:47# 128. lþ. 12.1 fundur 67. mál: #A aðgerðir til að efla löggæslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ýmislegt hefur verið gert á undanförnum árum á vegum dómsmrn., embættis ríkislögreglustjóra og lögregluembættanna í landinu til að efla löggæslu í landinu. Þessar aðgerðir eru raktar ítarlega í skýrslu minni til Alþingis um stöðu og þróun löggæslu sem lögð var fram á síðasta þingi.

Til upprifjunar fyrir hv. þm. og aðra get ég greint frá því að þar kemur fram að á undanförnum árum hefur verið unnið að margvíslegri uppbyggingu innan lögreglunnar. Þar kemur m.a. fram að raunhækkun á fjárframlögum til löggæslu hafa verið um 30% á sl. fimm árum og þá eru ekki taldar með hækkanir til sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli né ríkislögreglustjóra. Þessi raunhækkun hefur farið til eflingar löggæslunnar á ýmsum sviðum. Fjölgun lögreglumanna á landinu hefur verið töluverð á undanförnum árum. Þeim hefur t.d. fjölgað um tæplega 7% ef litið er til starfandi lögreglumanna miðað við íbúafjölda á bak við sig. Ef einungis er litið til lögreglunnar í Reykjavík síðustu tíu ár hefur fjölgunin verið um 10% jafnvel þótt verkefni fjarskiptamiðstöðvar og sérsveitar hafi verið flutt til ríkislögreglustjóra.

Hv. þm. spurði sérstaklega um Kópavog og flutning umferðardeildar ríkislögreglustjóra þangað. Ég tel að það sé mikið framfaraskref vegna þess að sýslumaður hafði helst áhyggjur af því að bæta þyrfti umferðareftirlit í Kópavogi þannig að ég tel að hv. þm. geti samglaðst þeirri ráðstöfun.

Einnig má nefna að umferðareftirlit hefur verið stóraukið á þjóðvegum og í þéttbýli. Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sem tók til starfa fyrir nokkrum árum sinnir nú öllum íbúum og lögreglumönnum á suðvesturhorni landsins með áberandi góðum árangri. Hefur þetta fyrirkomulag leitt til þess að unnt hefur verið að efla eftirlit í þeim umdæmum sem þjónað er af fjarskiptamiðstöðinni og um leið ýmsa þjónustu við íbúa, þar á meðal hefur grenndarlöggæsla verið efld. Fíkniefnalöggæsla hefur verið efld til mikilla muna á undanförnum árum og fíkniefnalögreglumönnum hefur fjölgað mikið um allt land, tækjabúnaður bættur og þjálfun fíkniefnahunda verið efld mikið. Þá hefur sérstaklega verið horft til eflingar grenndarlöggæslu og hverfalöggæslu, einkum á höfuðborgarsvæðinu eins og ég rakti í svari við fyrirspurn hv. þm. á síðasta þingi.

Þingmaðurinn vísar til þess í spurningu sinni hvað líði vinnu sem sett var af stað í ráðuneytinu með það að markmiði að efla löggæslu í landinu. Ég get fært hv. þm. ágætisfréttir af því starfi. Eins og ég rakti á síðasta þingi setti ég í gang vinnu í ráðuneytinu til að leggja mat á hvernig unnt væri að efla löggæslu með því að nýta betur þá fjármuni sem nú eru veittir til löggæslu. Óformlegur vinnuhópur hefur sinnt þessu starfi undanfarna mánuði og m.a. skoðað hvort nánari samvinna milli lögregluliða geti skilað sér í betri þjónustu til íbúanna. Hópurinn hefur jafnframt í hyggju að kynna sér ítarlega fyrirkomulag þessara mála og fjárveitingu til lögreglu í nágrannalöndum okkar, einkum Noregi og Danmörku, og leita þarf hugmynda og leiða til að efla enn frekar löggæslu í landinu.

Það sem vinnuhópurinn hefur skoðað sérstaklega eru m.a. atriði sem snúa að skipulagi lögreglunnar og hvort æskilegt sé að breyta því. Er þá bæði undir að skoða hvort grundvallarbreytingar séu nauðsynlegar á núverandi fyrirkomulagi og einnig hvort smærri breytingar sem unnt er að taka þegar í framkvæmd geti skilað árangri.

Á undanförnum árum hefur verið nokkuð mikil gerjun á þessu sviði hjá nágrönnum okkar á Norðurlöndunum og hafa niðurstöður úr því verið til sérstakrar skoðunar. Hvað smærri atriði varðar verða skoðaðir möguleikar á breytingum á vaktafyrirkomulagi og hvort aukin samvinna milli lögregluliða og jafnvel samkeyrsla þeirra að ákveðnu marki muni fela í sér öflugri löggæslu.

Þá má einnig nefna að í tengslum við þá vinnu er á dagskrá ráðuneytisins að skoða ítarlega hvernig unnt er að einfalda innheimtu sekta og sakarkostnaðar en vinna lögreglu í tengslum við það er óhemjutímafrek og viðamikil. Ef unnt er að draga úr kostnaði lögregluliðanna vegna þessa verkefnis er stefnan sú að nota þá fjármuni sem sparast til að efla enn frekar sýnilega löggæslu. Að því er stefnt að starfshópurinn sem skipaður er fulltrúum frá dómsmrn., ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum í Reykjavík muni skila fyrstu hugmyndum sínum í byrjun næsta árs.

Meginmarkmið þeirrar vinnu er einmitt að leita leiða til að hagræða og spara innan löggæslunnar með það að markmiði að nýta þá fjármuni sem sparast til frekari eflingar löggæslu. Það hefur sýnt sig að grenndarlöggæsla er mjög áhrifarík löggæsluaðferð sem skilar sér í betra og öruggara samfélagi. Það er því skýrt markmið mitt að reyna með öllum tiltækum leiðum að efla þann þátt í starfi lögreglunnar í landinu og að því er nú unnið.