Aðgerðir til að efla löggæslu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:50:36 (579)

2002-10-16 13:50:36# 128. lþ. 12.1 fundur 67. mál: #A aðgerðir til að efla löggæslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:50]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég undrast þau stóryrði sem sumir hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa látið falla í umræðunum um stöðu löggæslumála í landinu. Ég vil sérstaklega benda þeim á skýrslu sem lögð var fyrir þingið um stöðu og þróun löggæslunnar sl. vor. Ég vil nefna nokkur atriði sem greinilegt er að hv. þm. hafa ekki kynnt sér eða telja ekki þjóna sínum málstað að hafa orð á.

Ég nefndi nokkur atriði áðan þar sem fram kom alveg greinilega að bæði hefur verið fjölgað í lögreglunni og aukið fjármagn sett í þennan málaflokk. En í skýrslunni er einnig fjallað um eflingu umferðareftirlits, fíkniefnalöggæslu, skipulagsbreytingar og tækninýjungar sem eflt hafa lögregluna, bætt nám í Lögregluskólanum o.fl. Jafnframt er bent á þá stöðu að lögregluliðið hér á landi er hlutfallslega sambærilegt eða stærra en í nágrannalöndum okkar jafnvel þótt afbrotatíðni hér á landi sé miklu minni en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Allt tal um að löggæslumál séu í ólestri hér á landi eru því víðs fjarri raunveruleikanum þannig að ef hv. þm. hafa ætlað að slá pólitískar keilur með þessari umræðu, þá hefur það ekki tekist.

Staðreyndin er sú að lögreglan hefur staðið sig mjög vel, enda sést það af nýlegri könnun Gallups sem sýndi það að 71% þjóðarinnar bera mikið traust til lögreglunnar.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi um Kópavog, þá hlýtur maður að ætla að sýslumaðurinn þar og lögreglustjórinn viti nákvæmlega hvar þarf að taka til hendinni og hans mat var að það væri í umferðareftirliti.

Og það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi, þá veit hann líka að það voru sveitarfélög á Vesturlandi sem voru á móti þessari sameiningu og í dag er samstarfssamningur milli lögregluliðanna þannig að þau vinna saman.