Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:52:51 (580)

2002-10-16 13:52:51# 128. lþ. 12.2 fundur 138. mál: #A reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í raun og veru má segja að þetta sé hluti af sama máli vegna þess að eins og við vitum blasir við vandi sýslumannsembættanna vítt og breitt um landið við gerð fjárlaga hvers einasta árs.

Við þurfum ekki annað en skoða fjárlög, fjáraukalög og beiðnir sem berast og það merkilega gerist samt, eins og t.d. fyrir ári þegar fjárln. biður um grunngögn fyrir starfsemi sýslumannsembættanna vítt og breitt um landið, þ.e. grunnbeiðni þeirra um hvað það sé sem þeir telji að brenni mest á í fjárveitingum og hvað sé erfiðast við að eiga, þá voru svörin ósköp einfaldlega þau að fjárln. þingsins hefði í raun og veru ekkert við þessi grunngögn að gera, sem er auðvitað mjög sérstakt. En sýslumenn landsins hafa verið seinþreyttir til vandræða. Því var árið 1999 sett á laggirnar nefnd en samkvæmt því sem kom fram í frv. til fjárlaga fyrir árið 1999 skipaði dóms- og kirkjumrh. nefnd til að fara yfir rekstur sýslumannsembætta með það fyrir augum að samræma fjárveitingar til embættanna á grunni skilgreindra viðmiða, svo sem mannafla, íbúafjölda og fleira. Markmiðið væri að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til reksturs og þjónustu sýslumannsembættanna og auðvitað samanburði á kostnaði einstakra embætta. Nefndin stefndi að því að gera reiknilíkan með það að markmiði að fjárveitingar til þeirra embætta væru gegnsæjar og jafnframt að einhver samræming væri þar á milli. Nú er árið 2002. Nefndin hefur starfað síðan 1999 og hefur eftir því sem ég best veit ekki lokið störfum en það getur þó verið að hún hafi skilað einhverri bráðabirgðaskýrslu. Þetta er auðvitað stór hluti af því að eðlilegar fjárveitingar séu settar í sýslumannsembættin, m.a. í störf lögregluþjóna, löggæslu á viðkomandi svæðum. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hefur nefnd sem skipuð var 1999 um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta lokið störfum? Ef svo er, hver var niðurstaða hennar? Ef ekki, hvenær má þá vænta niðurstöðu?

2. Hverjir voru skipaðir í nefndina og hverjar eru heildarlaunagreiðslur til nefndarmanna á þeim tíma sem hún hefur starfað, skipt niður á ár?