Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:55:33 (581)

2002-10-16 13:55:33# 128. lþ. 12.2 fundur 138. mál: #A reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. var árið 1999 skipuð nefnd um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta. Nefndin hefur ekki lokið störfum en fyrirhugað er að hún skili áfangaskýrslu í upphafi næsta árs.

Spurt er hverjir voru og eru skipaðir í nefndina. Upphaflega voru það Björn Thorarensen, skrifstofustjóri dóms- og kirkjumrn. sem jafnframt var formaður, Sólmundur Már Jónsson, deildarstjóri í sama ráðuneyti, Ásdís Ingibjargardóttir, sérfræðingur á fjárlagaskrifstofu fjmrn., Jón Magnússon, sérfræðingur á fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjmrn., Þorleifur Pálsson, sýslumaður í Kópavogi, Björn Jósef Arnviðarson, sýslumaður á Akureyri, og Óli Lúðvíksson, skrifstofustjóri við sýslumannsembættið á Ísafirði.

Nokkrar breytingar hafa orðið á skipun nefndarinnar sem eru þær helstar að þar er nýr formaður Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumrn., Ásdís Ingibjargardóttir er skrifstofustjóri í sama ráðuneyti og Nökkvi Bragason, sérfræðingur á fjárlagaskrifstofu fjmrn.

Nefndarmenn hafa ekki fengið sérstaklega greidd laun vegna starfa sinna í nefndinni en greitt hefur verið fyrir útlagðan kostnað vegna ferða nefndarmanna sem búa utan Reykjavíkur. Það eru sumir sýslumenn sem eiga sæti í nefndinni.

Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markmið starfs hennar að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til rekstrar og þjónustu sýslumannsembætta og kerfisbundinni skiptingu fjármuna milli embætta. Einnig var stefnt að því að gera kostnað einstakra embætta samanburðarhæfan og að einingarkostnaður yrði sambærilegur hjá embættunum að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna. Áður en til skipunar nefndarinnar kom höfðu dómsmrn. og fjmrn. sameiginlega kannað möguleika á því að skilgreina rekstur sýslumannsembætta með kerfisbundnari hætti en gert var með það fyrir augum að fá betri yfirsýn yfir fjárþörf embættanna og að stuðla að jafnari skiptingu og betri nýtingu fjármuna.

Nefndin hóf störf sín með því að afla upplýsinga hjá öðrum Norðurlöndum um hvort sambærilegt verk hefði verið unnið þar. Af þeim svörum sem bárust reyndist svo ekki vera. Nefndin kynnti sér líka reiknilíkan í rekstri framhaldsskóla og háskóla hér á landi sem unnið hefur verið með í mörg ár á vegum menntmrn. Að lokum fór síðan nokkur tími í að afla upplýsinga um einstaka rekstrarþætti hjá sýslumannsembættum.

Gerð reiknilíkans sem mælir á raunsæjan hátt rekstrarkostnað embætta reyndist vera mun flóknari en talið var í upphafi og hefur það fyrst og fremst tafið störf nefndarinnar. Er það þó aðallega að rekja til löggæsluhlutans en vaktafyrirkomulag löggæslunnar í landinu er með mjög mismunandi hætti eftir fjölda lögreglumanna við embættið, hvort rekin eru eitt eða fleiri útibú, stærð umdæmisins í ferkílómetrum talið og fleira. Má segja að nefndin hafi lent í nokkrum erfiðleikum með að feta jafnvægið milli þess að einfalda ekki um of líkanið þannig að það í reynd mældi ekki á raunhæfan hátt kostnað og hins að gera líkanið ekki svo flókið að það yrði ekki handhægt vinnutæki.

Nú er svo komið að líkanið er að stærstum hluta tilbúið. Eftir er að huga að leiðbeiningum um virkni þess og framsetningu auk þess að uppfæra rekstrartölur miðað við árið 2001. Stefnt er að því að nefndin fjalli um áfanganiðurstöður öðrum hvorum megin við áramótin. Þegar vinnu nefndarinnar lýkur er auðvitað komið að því að leggja mat á hvernig unnt er að nota reiknilíkanið til að bæta nýtingu fjármuna og dreifa þeim með sem sanngjörnustum hætti. Það er varla raunhæft að gera ráð fyrir miklum tilflutningi fjármuna milli embætta, reynist svo vera að þeim sé misskipt miðað við þær forsendur sem liggja til grundvallar. Á þessu stigi er helst að líta til þessa reiknilíkans sem mælikvarða á hvar beri helst að leggja áherslu á úrbætur á næstu árum. Það getur svo verið framtíðarsýn að líkanið ákvarði beinlínis fjárveitingar en of snemmt er að segja til um hvort svo verði.