Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 13:59:48 (582)

2002-10-16 13:59:48# 128. lþ. 12.2 fundur 138. mál: #A reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Í tilefni af því að hæstv. dómsmrh. hefur áhyggjur af því hve þingmenn eru neikvæðir, þá hlýt ég að vekja athygli á því að það sem þingmenn bera hingað inn á hið háa Alþingi á oftast nær rætur heima í héraði og í upplýsingum sem koma til þingmanna á ferðum þeirra um kjördæmi og heimsóknir í sveitarstjórnir.

Herra forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því að Sjálfstfl. hefur verið með dómsmrn. í u.þ.b. áratug. Verið er að skoða fjárveitingar og nýtingu fjármagns og skiptingu fjármagns í nefndum. Hér hefur verið getið um tvær nefndir og báðar munu skila af sér á kosningavori og við hljótum að fagna því. En ég vek athygli á þessu, virðulegi forseti. Einnig er verið að tala um að nýta fjármagn, nýta sama fjármagnið til annarra, nýrri og betri gjörða. Það er annað en blasir við með eitt tiltekið embætti hér, hjá ríkislögreglustjóra, þar sem það embætti hefur blásið út úr um og yfir 200 millj. á örfáum árum og í 560. Það er eitthvað annað.