Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:01:03 (583)

2002-10-16 14:01:03# 128. lþ. 12.2 fundur 138. mál: #A reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., GE
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:01]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Aðeins ofan á þessa umræðu sem bæði fór hér fram áðan og nú um stöðu löggæslumála víða um land. Hér áðan var Búðardalur nefndur og það svæði. Þar er einn löggæslumaður og hann á ekki einu sinni möguleika á því að framkvæma það eftirlit sem hann þarf. Hann er nánast bjargarlaus nema ökumaður sem hann stöðvar vegna of hraðs aksturs viðurkenni á staðnum að hann hafi raunverulega verið að brjóta af sér. Hið sama má segja um embættin víða um land.

Hjá sýslumannsembættinu á Hólmavík velta menn vöngum yfir því hvort heldur eigi að vera með góðan lögreglubíl og einn lögreglumann eða tvo lögreglumenn og lélegan lögreglubíl. Svona er ástandið í þessum málum mjög víða um land. Á þessu þarf að taka. Þess vegna er verið að ræða máliið á Alþingi.