Val kvenna við fæðingar

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:15:23 (589)

2002-10-16 14:15:23# 128. lþ. 12.3 fundur 69. mál: #A val kvenna við fæðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að koma hér með þessa fyrirspurn og vekja athygli á málaflokknum. En fæðing barns er ekki sjúklegt ástand. Það er eðlileg líkamsstarfsemi í flestum tilfellum. Það er sem betur fer undantekning ef leita þarf aðstoðar á hátæknisjúkrahúsi vegna fæðinga í heimahúsum. Því miður hefur þróunin hins vegar orðið sú að langflestar konur fæða orðið á hátæknisjúkrahúsum og þá hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil taka fram að til að hægt sé að meta hvort ástæða sé til að senda konu um langan veg utan af landi til að fæða á hátæknisjúkrahúsi þarf öfluga mæðravernd, læknar og ljósmæður þurfa að vera til staðar. Því miður er það ekki alls staðar þannig. Eins og hér var nefnt þá vantar ljósmæður, a.m.k. á Héraði nú um stundir. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort áætlanir séu uppi um að hvetja ljósmæður til að sinna störfum á landsbyggðinni.