Val kvenna við fæðingar

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:23:15 (595)

2002-10-16 14:23:15# 128. lþ. 12.3 fundur 69. mál: #A val kvenna við fæðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál. Ég vil taka fram að ég er sammála því að eðlileg fæðing er ekki sjúklegt ástand. Ég vil einnig taka fram að ég er ekki sammála því að eingöngu sé um hátæknisjúkrahús eða heimafæðingar að velja. Börn fæðast á fæðingardeildum um allt land. Ég hef heimsótt þær mjög margar. Þar er mjög notaleg aðstaða til fæðinga og reynt að gera hana eins heimilislega og kostur er.

Við verðum náttúrlega alltaf að þræða meðalveginn en eins og fram kom í máli sumra hv. þm. verður öryggið að vera í fyrirrúmi. Ef minnsta hætta er á ferðum eru konur sendar hingað á hátæknisjúkrahúsið til að fæða. Það er reglan. Ég held að við verðum að halda okkur við það.

Ég tek hins vegar eindregið undir að æskilegast væri að sem flestar fæðingar gætu farið fram í heimabyggð. Í allri þessari umræðu, um hve margar fæðingar þurfi á ári til að öryggið sé fullkomið, hefur ráðuneytið ekki gengið á undan í að láta leggja niður fæðingardeildir. Svo er alls ekki. Við höfum ekki haft forustu um það. Við viljum reka þá stefnu að konur geti fætt í heimabyggð.

Því miður hefur verið skortur á ljósmæðrum. Svo er m.a. í minni heimabyggð eins og hér hefur komið fram í þessari umræðu. Þar vantar ljósmæður vegna brottflutnings og náms tveggja ljósmæðra sem þar voru. Mér er fullkunnugt um það. Það hefur verið skoðað hvaða möguleikar eru þar fyrir hendi. Það þarf að fjölga hjúkrunarfólki með þessa sérmenntun.