Rekstrarform í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:25:57 (596)

2002-10-16 14:25:57# 128. lþ. 12.4 fundur 76. mál: #A rekstrarform í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi LMR
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Svo langt sem ég man hefur einkarekstur viðgengist utan sjúkrahúsa, bæði hjá sérfræðingum og áður hjá heimilislæknum, þótt breyting hafi orðið þar á með tilkomu heilsugæslustöðva á sínum tíma. Nú er rætt um möguleika á að breyta rekstrarformi sjúkrahúsa til að auka sveigjanleika í rekstri þeirra. Rætt hefur verið um þjónustusamninga og jafnvel einkarekstur einstakra deilda. Ég tel það af hinu góða þar sem sveigjanleiki mun geta mætt mismunandi þörfum sjúklinga og aðstæðum og eðli þeirrar þjónustu sem deildirnar veita.

Að undanförnu hefur borið á því að hugtakinu ,,einkarekstur`` sé blandað saman við hugtakið ,,einkavæðing``. Einkarekstur hefur til þessa verið skilgreindur þannig að hið opinbera geri samninga um ákveðna þjónustu. Einkavæðing felur hins vegar í sér að hið opinbera losi sig alfarið eða a.m.k. að hluta til við ákveðna rekstrarþætti til einkaaðila og sjúklingar greiði þá alfarið fyrir þjónustuna nema um annað semjist. Í einkavæddri þjónustu þekkist þó einnig að sjúklingar geti framvísað reikningum sínum til opinberra tryggingaaðila eða einkatryggingafélaga og fengið þá endurgreidda að hluta eða öllu leyti, allt eftir því hvernig samningar gerast við hið opinbera eða opinber tryggingafélög.

Vera kann að opinberir aðilar hafi ekki metið fyllilega þá möguleika sem eru á hagræðingu sem falist gæti í að semja um ákveðið magn þjónustu við einakaðila og þar með létta álagi af núverandi heilbrigðiskerfi og bæta þjónustu við þá sem þurfa á henni að halda. Þessi kostur einkareksturs eða þjónustusamninga á hvort tveggja við rekstur utan og innan sjúkrahúsa. Einkarekstrarformið er hvati til að gera vel og þar með auka gæði og þjónustu við þá sem þurfa á henni að halda. Auk þess gefa minni einingar betri yfirsýn yfir þjónustuna og gera þjónustuna persónulegri. Yfirsýnin verður einnig betri hvað varðar allan kostnað.

Vegna umræðu um aukinn sveigjanleika í rekstri sjúkrahúsa, þá einkum með tilliti til samanburðar við einkarekstur sem viðgengist hefur utan þessara sjúkrahúsa, vildi ég spyrja hæstv. ráðherra:

Hvaða mun sér ráðherra á einkarekstri í heilbrigðisþjónustu --- þá sérstaklega utan sjúkrahúsa --- og auknu sjálfstæði og hugsanlegum sveigjanleika í rekstri einstakra sjúkrahúsdeilda?