Úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:35:24 (600)

2002-10-16 14:35:24# 128. lþ. 12.5 fundur 78. mál: #A úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:35]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beint til mín fsp. í fimm liðum um vanda ungs fólks sem hlotið hefur varanlegan heilaskaða og mikla hreyfihömlun og þarfnast hjúkrunarrýmis. Hér er um mjög sundurleitan hóp að ræða sem þarfnast margvíslegra þjónustuúrræða. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu afar brýna máli. Fyrsta spurning hv. þm. er svohljóðandi:

,,Hvað hyggst ráðherra gera til að leysa vanda ungs fólks sem hefur hlotið varanlegan heilaskaða og mikla hreyfihömlun og þarfnast hjúkrunarrýmis?``

Við í heilbrrn. höfum rætt nokkrar leiðir til að mæta þessum vanda en því miður verð ég að segja að enn hafa ekki fundist lausnir sem við teljum fullnægjandi. Málefni þess hóps sem þingmaðurinn beinir sjónum að eru stundum á mörkum heilbrrn. og félmrn. og því hefur málið einnig verið rætt á vettvangi félmrn. Þó að bygging hjúkrunarheimilis fyrir þennan hóp sé ekki eitt af skilgreindum forgangsverkefnum heilbrigðisþjónustunnar núna er þó að sönnu afar mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því hve miklu rétt úrræði getur skipt þá einstaklinga sem hér um ræðir og aðstandendur þeirra. Ég ræði málið út frá þeim forsendum í leit að lausnum. Í öðru lagi spyr þingmaðurinn:

,,Hvað eru margir í þessum hópi, sbr. 1. lið, hvar eru þeir vistaðir nú og hver eru varanleg úrræði sem þeir þurfa á að halda?``

Á Hlein eru vistaðir sjö ungir einstaklingar sem eru heilaskaðaðir og fjölfatlaðir. Þessir einstaklingar eru búsettir þar til margra ára og stofnunin er byggð sérstaklega fyrir þennan hóp. Í Skógarbæ er rekin 11 rúma hjúkrunardeild sem ætluð er fyrir unga og mjög fatlaða einstaklinga. Í Sjálfsbjargarhúsinu búa nokkrir ungir fatlaðir einstaklingar sem geta búið að miklu leyti sjálfstætt og eru á mörkum þess hóps sem hér um ræðir. Í Arnarholti hafa verið búsettir til skamms tíma örfáir ungir einstaklingar með heilaskaða en það húsnæði hentar ekki vel fyrir hreyfihamlaða. Fimm einstaklingar hafa á síðustu þremur árum verið útskrifaðir frá Grensásdeildinni og hafa þeir vistast á öldrunarstofnunum, á líknardeild eða á stofnunum á landsbyggðinni eða í Reykjavík. Þrír ungir einstaklingar, fjölfatlaðir eftir slys, eru á hæfingardeild í Kópavogi. Alls eru þetta milli 15 og 20 einstaklingar en eins og áður segir geta úrræðin sem þeir þarfnast verið allólík. Þá er spurt:

,,Telur ráðherra það forsvaranlegt að þetta fólk festist á endurhæfingar- eða öldrunardeildum?``

Ég tel það ekki æskilega lausn. Stundum er það þó illskásta úrræðið miðað við aðstæður. Deildin í Skógarbæ er t.d. hönnuð sérstaklega fyrir ungt fólk þó að hún sé innan veggja hjúkrunarheimilis aldraðra.

,,Hve mikið kostar að leysa vanda þessa fólks með sérhæfðu hjúkrunarheimili og hver er kostnaður nú við vistun þessara einstaklinga?``

Hvað stofnkostnað við byggingu sérhæfðs hjúkrunarheimilis varðar má gera ráð fyrir að hann yrði 170--200 millj. ef miðað er við 15 einstaklinga. Rekstrarkostnaður gæti verið rúmlega 100 millj. á ári. Ekki var unnt að afla upplýsinga um kostnað vegna þessara einstaklinga nú en geta má þess að á Hlein eru gjöld um 6,9 millj. á einstakling á ári svo að dæmi sé tekið. Að síðustu spyr þingmaðurinn:

,,Hve margir framangreindra einstaklinga, sbr. 2. lið, eru í umsjá aðstandenda og fá þeir nægjanlega hjúkrunar- og heimilisaðstoð?``

Því miður var ekki hægt að afla upplýsinga um þennan fjölda innan settra tímamarka. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um neina einstaklinga sem falla undir þessa skilgreiningu, búa heima hjá aðstandendum en njóta ekki nauðsynlegrar aðstoðar. Brátt verður boðin ný þjónusta við Grensásdeildina sem felst í að fylgja þessum einstaklingum eftir í heimahús og styðja þá áfram með þeim hætti. Það er ætlunin að þverfaglegt teymi komi þar að málum.