Úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:42:06 (603)

2002-10-16 14:42:06# 128. lþ. 12.5 fundur 78. mál: #A úrræði fyrir ungt hreyfihamlað fólk# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru skýr svo langt sem þau náðu. Þau staðfestu í mínum huga að aðbúnaður þessa fólks er mjög ófullkominn og mér fannst mjög miður að það kom fram í máli ráðherra að hér væri ekki um að ræða skilgreint forgangsverkefni að því er hjúkrunarrými varðar, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. Ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherra að áætlun hefði verið gerð um lausn fyrir þetta unga hreyfihamlaða fólk, þessa 15--20 einstaklinga. Það er alveg óviðunandi að þeir þurfi að búa við það að festast varanlega á endurhæfingar- eða öldrunardeildum. Við verðum að líta til þess að ef ekki koma til aðrar úrbætur eru þessar deildir heimili þessa unga fólks alla ævi. Þetta fólk þarf á úrlausn að halda sem leysir vanda þess. Þess vegna er mjög bagalegt að ráðuneytið skuli ekki gera neina áætlun í þessu efni.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að gerð verði áætlun um lausn á vanda þessa fólks. Það þarf að taka þetta mál með inn í endurskipulagningu á heilbrigðiskerfinu. Við sjáum að þessar tölur eru ekki svo háar að þær séu óyfirstíganlegar. Ráðherrann er að tala um 270 millj. kr. í stofn- og rekstrarkostnað og þarna ætti alls ekki að vera um óleysanlegt verkefni að ræða. En ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann ekki tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að þetta verði sett inn á áætlun þannig að við sjáum innan kannski 3--4 ára varanlega lausn fyrir þennan hóp? Sú lausn fælist auðvitað fyrst og fremst í sérhæfðu hjúkrunarrými.