Öryggisgæsla á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:50:03 (606)

2002-10-16 14:50:03# 128. lþ. 12.6 fundur 128. mál: #A öryggisgæsla á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín svohljóðandi spurningu:

,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að öryggisgæsla á sjúkrahúsum verði hert? Ef svo er, á hvern hátt og hver verður kostnaður við það?``

Spurningar þingmannsins varpa ljósi á þær áhyggjur sem margir hafa nú um stundir af fjölgun innbrota og þjófnaða á sjúkrastofnunum og af þeim aðstæðum sem geta skapast t.d. á bráðadeildum þegar einstaklingar eða jafnvel hópar undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna ógna umhverfi sínu. Þetta eru aðstæður sem nauðsynlegt er að koma í veg fyrir eins og framast er unnt og hafa þessi mál verið rædd við stjórnendur stofnananna.

Öryggisgæsla á sjúkrahúsum þarf að vera miðuð við sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Í flestum tilvikum gagnast sömu öryggisatriði öllum þessum hópum. Árið 1996 stóð Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Starfsmannafélag ríkisstofnana og Sókn fyrir könnun á ofbeldi gagnvart starfsfólki í félags- og heilbrigðisþjónustu. Af svarendum könnunarinnar hafði tæpur fjórðungur orðið fyrir einhvers konar ofbeldi síðustu sex mánuðina fyrir könnunina en 5,8% af heildinni hafði orðið fyrir meiri háttar líkamlegu ofbeldi á tímabilinu. Ljóst er að auk annarra afleiðinga gæti þetta haft mikil áhrif á mönnun og brottfall úr starfi og þar með á gæði þjónustu.

Að fengnum þessum niðurstöðum skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd til að gera tillögu til úrbóta og skilaði nefndin tillögum í febrúar. Ekki gefst kostur á að fjalla ítarlega um tillögurnar hér en þær lúta að stefnumörkun stofnananna, fræðslu, þjálfun, leiðbeiningum, skráningu og aðstoð við þá sem orðið hafa fyrir ofbeldi.

Tillögur nefndarinnar um öryggisgæslu eru um mikilvægi öryggiskerfa og öryggishnappa og er velt upp þeirri hugmynd að skýra mun betur verksvið öryggisvarða og tryggja heimild þeirra til afskipta. Þá er fjallað um mikilvægi þess að við hönnun sé tekið mið af hættuaðstæðum, m.a. með öryggisglerjum, aðgangsstýringu og eftirlitsmyndavélum. Nokkrar stofnanir hér á landi eru að kanna hvernig sé best að haga öryggisgæslu miðað við þær aðstæður sem við nú búum við. Sem dæmi má nefna að á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er nú öryggiskerfið tengt stjórnstöð á nokkrum stöðum. Þar hafa stjórnendur kannað kostnað við að setja upp sex til tíu öryggismyndavélar tengdar tölvukerfi spítalans. Kostnaður yrði væntanlega um 2 millj. og rekstrarkostnaður á ári, þ.e. vaktkostnaður, um 8 millj.

Á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi hefur orðið að grípa til aukinna aðgerða í öryggisskyni á síðustu árum. Þar starfa nú sérstakar öryggisdeildir í Fossvogi, á Landakoti og á Hringbraut. Hlutverk starfsmanna þessara deilda er að gæta að umferð, tryggja öryggi sjúklinga, starfsmanna og gesta á spítalanum auk þess sem þeir vakta öryggiskerfi spítalanna og eru þjálfaðir í viðbrögðum við boðum frá þeim. Þeir sjá um dyragæslu og hleypa fólki inn eftir lokun spítalans.

Öryggisverðir eru starfandi á öllum tímum sólarhrings. Auk þess sinna vaktmenn flutningum en eru til taks fyrir öryggisgæslu. Þá eru ýmis öryggiskerfi, þjófavarnakerfi á stöðum sem ekki eru með sólarhringsvakt. Þau skipta tugum. Og öflugt eftirlitsmyndavélakerfi er í Fossvogi og mjög bráðlega á Hringbraut.

Í gildi er samningur við lögregluna í Reykjavík um gæslu á slysadeild á kvöldin, næturnar og um helgar. Starfsmenn eiga allir að bera auðkenniskort til að efla öryggi. Næstu skref á Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi eru að styrkja myndavélakerfin og efla öryggisgæslu frekar og er kostnaður við það metinn á 16 millj. kr.

Ekki eru jafnmiklar öryggisráðstafanir á öllum stofnunum en víða er þó verið að efla margs konar eftirlit og stefnt er að minnkuðum aðgangi að þessum stofnunum. Það liggur ekki fyrir mat á kostnaði við þessar aðerðir.

Herra forseti. Til þess að draga saman svör mín í lokin vil ég taka skýrt fram að ég styð áform um aukna öryggisgæslu á sjúkrastofnunum í samræmi við vaxandi þörf, en ákvarðanir um hvernig slíkt yrði gert liggja ekki enn fyrir. Meðan svo er ekki eru allar ágiskanir um kostnað byggðar á veikum forsendum og því verð ég að láta það liggja á milli hluta hér. Ég mun þó væntanlega fá betri upplýsingar um aðferðir og kostnað vegna öryggisgæslu innan mjög skamms tíma.