Öryggisgæsla á sjúkrahúsum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:56:12 (608)

2002-10-16 14:56:12# 128. lþ. 12.6 fundur 128. mál: #A öryggisgæsla á sjúkrahúsum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og deili áhyggjum hans af aukningu þjófnaða og innbrota á sjúkrahúsin, en einnig af þeirri könnun sem gerð var og leiddi í ljós að tæpur fjórðungur starfsfólks segist hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi áður en könnunin er gerð. Ég fullyrði að það hafi versnað frá þeim tíma er hún var unnin.

Þegar lagðir eru inn fárveikir fíkniefnaneytendur sem þurfa að verða sér úti um lyf og beita til þess öllum tiltækum ráðum þá er hættan líka sú að ekki sé eingöngu um þjófnaði eða innbrot á sjúkrahúsin að ræða heldur einnig að veist sé að öðrum sjúklingum sem liggja á almennum deildum.

Ég fagna því sérstaklega að tillögur um hvernig öryggisgæsla skuli hert eigi að berast hæstv. ráðherra hið fyrsta vegna þess að ég tel að við þurfum að taka á þessu sérstaklega við afgreiðslu fjárlaga núna því að vandamálið er orðið mjög stórt. Þegar hefur þurft í þó nokkrum tilvikum að kalla til lögreglu eftir hjálp þrátt fyrir öryggiskerfi og þrátt fyrir öfluga öryggisgæslu á Landspítalanum. Spurningin er hvort ekki sé nauðsynlegt að koma á fót sérstakri öryggisdeild, þ.e. fyrir þá sjúklinga sem þarfnast öryggisgæslu. Hún yrði þá lokuð og aðstaðan þannig að þeir séu ekki inni á almennum deildum. Ekki er bara um að ræða öryggi sjúklinga á almennum deildum og starfsfólks heldur einnig fíkniefnaneytendanna sjálfra. Það er mjög nauðsynlegt fyrir þá að fá þá sérhæfðu aðstoð sem þeir þurfa, að tekið sé á vanda þeirra, fíkniefnavandanum, um leið og tekið er á öðrum líkamlegum sjúkdómum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og viðbrögð við þessu.