Rannsóknir á nýjum orkugjöfum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:13:07 (614)

2002-10-16 15:13:07# 128. lþ. 12.8 fundur 104. mál: #A rannsóknir á nýjum orkugjöfum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:13]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Mikil vakning er í gangi í heiminum í dag um að orkuframleiðsla heimsins verði sjálfbær og þess gætt að áhrif orkuöflunar og nýting hennar sé í sátt við umhverfið. Með ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg var mörkuð ákveðin stefna í þeim efnum þar sem þjóðir heimsins munu draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa á næstu árum. Orkustefna Íslendinga hefur að mörgu leyti verið til fyrirmyndar og ekkert ríki í heiminum er eins vel statt að þessu leyti og við, þar sem 70% orkunnar er sjálfbær. Það sem stendur út af er orka til bíla og skipaflota landsmanna.

Sá sem hér stendur lagði fram frv. fyrir nokkrum árum um notkun metangass á bíla. Gasframleiðsla Sorpu einnar dugir fyrir þúsundir bíla og með markvissu átaki til enn frekari virkjunar metangass úr sorphaugum landsmanna má ná enn lengra. Lausnir á þessu sviði eru tiltölulega ódýrar og auðvelt að skipta á milli gass og bensíns á sömu vél ef þarf. Notkun rafmagns á bíla hefur einnig farið vaxandi og mikil þróun er á því sviði erlendis sem ætti að geta gagnast okkur í nánustu framtíð.

Mikið hefur gert úr notkun vetnis af hálfu ráðuneytisins og hefur mörgum fundist sá mikli áhugi yfirskyggja skoðun á öðrum möguleikum. Það er samdóma álit fræðimanna að notkun vetnis sé ekki á næsta leiti, enda framleiðsla þess mjög dýr og vélar og öll uppbygging í kringum notkun þess mjög erfið.

Af þeim ástæðum, herra forseti, vil ég leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. iðnrh.:

1. Hve miklu fé hefur verið varið síðustu þrjú ár af hálfu ráðherra til rannsókna á nýjum orkugjöfum fyrir ökutæki, svo sem raforku, vetni, metani, lífdísli, etanóli og metanóli, sundurliðað eftir orkugjöfum?

2. Hvaða stefnu er fylgt við úthlutun fjár til slíkra þróunarverkefna?

3. Hvaða verkefni eru í undirbúningi og á vinnslustigi með öðrum aðilum eins og NýOrku ehf., VistOrku o.fl.?

4. Hve mikla fjármuni hefur NýOrka ehf. haft til umráða frá ráðuneytinu og til hvaða verkefna?